Jólafundur á Selfossi 23. nóv. 22

Margrét Steinunn kennari og djákni.
Margrét Steinunn kennari og djákni.

Gestur fundar

Margrét Steinunn Guðjónsdóttir, kennari og djákni, var gestur fundarins. Hún sagði okkur frá sjálfri sér og talaði um feril sinn, hvernig það kom til að hún varð kennari. Teningnum var kastað þegar skólastjóri  hringdi í hana og bað hana að koma að kenna hjá sér. Eftir að hafa kennt sem leiðbeinandi um hríð, fór hún í Kennaraháskólann og útskrifaðist þaðan.

Eftir að hafa kennt í 30 ár, og fengið brjóstakrabba, ákvað Margrét Steinunn að söðla um. Hún fór í Háskóla Íslands í djáknanám, í guðfræðideildinni. Nú starfar Margrét Steinunn sjálfstætt við sálgæslu og er með endurhæfigarhóp, Aftur út í lífið, hjá Krabbameinsfélagi Árnesinga

Vináttan

Rauði þráðurinn í spjalli Margrétar Steinunnar var vináttan og vitnaði hún í þessa klausu:  Að verða vinur tekur stutta stund - að vera vinur tekur ævina á enda.

Eftir veikindin spurði hún sjálfa sig þessara spurningar: Hvað vil ég fá inn í líf mitt? Og svarið var: Ást, hamingju, kærleika, jákvæðni, sátt, öryggi, hugrekki, gleði og tilhlökkun.

Að vera hamingjusöm – eða ekki

Margrét Steinunn benti á að við þyrftum ekki að leita langt yfir skammt að hamingjunni. Hún væri oft handan við hornið, jafnvel við eldhúsborðið og í hinu daglega lífi. Það er viðhorf okkar sem hafur mest að segja. Við getum tekið ákvörðun um að vera hamingjusöm. Og við þurfum að reyna að temja okkur að sjá hið jákvæða þegar eitthvað bjátar á og forðast að festast í fórnarlambs gírnum. Hún endaði spjallið með þessari skopsögu:

„Þrír bræður komu að hamingjunni sitjandi úti í skurði. 

Hamingjan spurði þann fyrsta hvað mætti bjóða honum.

-Hann bað um fulla vasa fjár. Honum varð að ósk sinni og snéri glaður heim á leið. Hamingjan spurði þann númer tvö hvað hann vildi. Hann óskaði sér einskis heitara en að eignast fallega konu. Sá fékk ósk sína einnig uppfyllta.

Þá snéri hamingjan sér að þeim þriðja og bar upp sömu spurningu.

"Veistu, mér dettur bara ekkert í hug", svaraði hann, "en hvað má bjóða þér?". Hamingjan svaraði hissa: "það væri nú gott að komast upp úr þessum skurði".

Hann hjálpaði henni upp og hélt svo heim á leið ... og hamingjan elti hann.

Systur brustu í söng

Þegar Margrét Steinunn hafði lokið máli sínu, tók hún upp gítarinn og við sungum saman nokkur skemmtileg lög. Við byrjuðum á að syngja afmælisönginn fyrir Margréti G. Epsilon-systur og enduðum á jólalagi. Guðríður formaður var svo hrifin hvað við hljómuðum vel í stofunni hennar að hún bókaði okkur á landssambandsþing í vor!

Að lokum

Við systur vorum afskaplega ánægðar með fundinn á notalegu og fallegu heimili formannsins. Við fórum glaðar og saddar heim eftir að hafa gætt okkur á góðum smáréttum sem keyptir voru af veisluþjónustu á Selfossi.

Við fundum fyrir jólaandanum þegar við gengum út í myrkrið sem upplýst var af fallegum jólaljósum. Það er orðið jólalegt á Selfossi.

Gleðileg jól!