Aðalfundur Kappadeildar 2010

Aðalfundur Kappadeildar var haldinn 20. maí í sumarbústað Önnu Kristínar Sigurðardóttur á Mýrunum. Tólf Kappakonur áttu heimangengt þennan dag, fjölmenntu í bíla og brunuðu burt úr bænum um fjögur leytið.  Anna Kristín var þá þegar komin í sumarbústaðinn og beið okkar með mat og drykk.  Eftir aðalfundinn fórum við í gönguferð um svæðið undir leiðsögn Önnu Kristínar.  Veðrið setti strik í reikninginn því það rigndi heilan helling á göngukonur.  Flestar voru þó vel klæddar og létu það ekki á sig fá. Eftir dásamlegan mat skelltu nokkrar hressar konur sér í pottinn áður en haldið var aftur í bæinn um kl. 22.

Ný stjórn var kosin á fundinum til næstu tveggja ára. Sigríður Hulda Jónsdóttir var kosin formaður en hún var varaformaður fráfarandi stjórnar.  Aðrar í stjórn voru kjörnar; Erla Guðjónsdóttir, Gunnlaug Hartmannsdóttir og Sigríður Johnsen.  Stjórnin á eftir að skipta með sér verkum og fá gjaldkera með sér til starfa.