Síðasti fundur vetrarins
20.05.2016
Síðasti fundur Kappa-deildar var haldinn á heimili verðandi formanns, Guðrúnar Eddu Bentsdóttur. Við mættum klukkan 18:00 fyrir utan heimili hennar og fórum í góða gönguferð. Þetta var óvissuferð og allt í einu vorum við komnar heim til Ingibjargar Guðmundsdóttur í Fossvoginum þar sem fram voru dregnar gullnar veigar. Þær voru teigaðar og hlátraskölllin glumdu um nágrennið. Um klukkan 19:00 vorum við komnar til baka á heimili Guðrúnar og þá byrjaði formlegur fundur. Byrjað var á aðal númeri kvöldsins. Það var frásögn Gunnhildar Óskarsdóttur sem stofnaði félagið Göngum saman en helsti tilgangur félagsins er að safna fé til rannsókna sem auka skilning á uppruna og eðli krabbameins í brjóstum. Gunnhildur sagði frá sjálfri sér og félaginu. Gunnhildur er ein af þessum hvunndagshetjum sem framkvæma hlutina og marka spor.
Eftir frásögn Gunnhildar var snædd dásamleg sjávaréttasúpa matreidd af húsfreyjunni og þar á eftir fór Gunnlaug Hartmannsdóttir fráfarandi formaður með orð til umhugsunar. Að lokum voru aðalfundarstörf þar sem meðal annars var kosin ný stjórn. Guðrún Edda Bentsdóttir var kosin formaður og auk hennar voru kosnar í stjórn þær Anna Hugadóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Júlíana Hilmisdóttir,
Konur fóru saddar og sælar heim eftir skemmtilega kvöldstund og bíða spenntar eftir að hittast á ný í haust.