Aðalfundur 18. maí 2022 í Tryggvaskála
Ingibjörg Ingadóttir var með orð til umhugsunar. Hún rifjaði upp nokkrar fallegar dæmisögur úr starfi sínu sem kennari. Hún hefur starfað á öllum skólastigum, við fullorðinsfræðslu og kennt útlendingum íslensku og hefur upplifað makalausa gleði í starfi sínu sem kennari.
Eydís Katla gjaldkeri Epsilon-deildar lagði fram reikninga sem voru samþykktir með lófataki og ekki síst vegna þess hve vel þeir voru uppsettir.
Guðrún Sigríks las upp fundargerð síðasta fundar sem haldinn var í Matkránni í Hveragerði 29. sept. 2021(bókafundurinn var haldinn rafrænt í lok janúar).
Skipuð var ný stjórn (á gömlum merg) og í henni eru: Guðríður Egilsdóttir (formaður), Eydís Katla (gjaldkeri), Guðrún Sigríks (ritari), Ester Hjartardóttir og Margrét Guðmundsdóttir sem kemur ný inn í stjórnina.
Ingibjörg Ingadóttir lætur af störfum sem formaður.
Guðríður ávarpaði fundinn og þakkaði traustið að velja sig sem formann. Hún sagði að dagskrá næsta vetrar (fram að áramótum) yrði senn tilbúin og fyrsti fundur haustsins yrði heima hjá sér. Systur klöppuð fyrir nýja formanninum og af tilhlökkun til næsta fundar.
Gestur fundarins var Soffía Sveinsdóttir sem er Selfyssingur og hefur verið í Gammadeild síðan 2014. Hún er deildarstjóri IB brautar við Menntaskólann í Hamrahlíð en er núna í námsleyfi og er að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýslu. Hún kynnti IB námið í MH sem er aðildarskóli að IBO (International Baccalaureate Organisation), alþjóðasamtökum 5000 skóla í yfir 140 löndum. Námið er bóklegt og mjög krefjandi sem lýkur með samræmdu prófi. Það veitir svipuð réttindi til framhaldsnáms og íslenska stúdentsprófið þótt það sé í ýmsu frábrugðið. Námið tekur tvö ár að loknu undirbúningsári í framhaldsskóla og er kennt og prófað að mestu á ensku. Námið er skipulagt í áföngum og öðrum nemendum MH býðst að sækja staka IB-áfanga og fá þá metna inn í hefðbundið stúdentspróf. HM er eini skólinn á landinu sem býður upp á þetta nám en brautin var stofnuð 1997.
Matur var framreiddur eftir að fundi lauk og voru systur eitt sólskinsbros eftir að hafa snætt mjög góðan aðalrétt og Dísuköku í eftirrétt, en síðast en ekki síst lukkulegar með góðan fund.