Aðventan að ganga í garð
Eftir venjubundin fundarstörf sagði Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju frá starfi sínu. Starfið í kirkjunni er umfangsmikið og mjög fjölbreytt dagskrá fyrir alla aldurshópa frá minnstu börnum til foreldra. Mjög áhugavert var að heyra um aðventuheimsóknir skóla- og leikskólabarna í kirkjuna þar sem jólasagan er kynnt fyrir þeim, sama sagan að sjálfsögðu, en með mjög mismunandi leikrænum útfærslum milli ára. Allt þetta er að sjálfsögðu valkvætt og allir velkomnir í kirkjustarfið. Það er greinilega unnið frábært starf í Selfosskirkju
Guðrún Sigríks Sigurðardóttir flutti okkur orð til umhugsunar. Þemað var tuð og kvartanir og hvernig við getum tamið okkur að vera jákvæðari í daglegu lífi. Þessi orð vöktu systur sannarlega til umhugsunar.
Eftir fundinn var farið á Hótel Selfoss og borðaður dýrindis þríréttaður aðventu-kvöldverður. Notalegt umhverfi, virkilega góður matur og frábært spjall við borðið.