Bókafundur á Iðu 2023
Epsilon-systur óku í hlað að Iðu í Biskupstungum, rétt fyrir tilsettan tíma, að heimili Elinborgar. Eftirvænting skein úr svip systra, þegar þær klæddu sig úr hlýjum og skjólgóðum fatnaði.
Þetta var fyrsti fundur á nýju ári og bókafundur, þar sem systur segja frá bókum sem þær lásu yfir hátíðirnar eða á liðnu ári.
Þær hröðuðu sér með matarföng á sameiginlegt veisluborð. Borðið var fljótt að fyllast af kræsingum sem borða átti í hléi frá bókakynningunni.
Þegar systur höfðu komið sér vel fyrir í stórri og fallegri sólstofu á Iðu var fundur settur með því að Guðríður formaður kveikti á kertum vinátta, trúmennsku og hjálpsemi.
Fundurinn var í styttra lagi því um 20 systur biðu óþreyjufullar með bók í hönd og tilbúnar að segja frá.
Hver systir kynnti eina bók, reyndar fóru sumar fram úr sér og minntust á fleiri, en 23 bækur voru skrifaðar niður á bókalista sem er að finna hér.
Flestar bækurnar voru eftir íslenska höfunda, aðeins þrjár voru þýddar.
Epsilon-systur héldu glaðar heim á leið eftir næringarríkan fund, bæði andlega og líkamlega.
Næsti fundur verður fimmtudag 9. mars.