Haustfundur í Skálholti

Dagskrá fundar var með hefðbundnu sniði; kerti vináttu, trúmennsku og hjálpsemi voru tendruð, fundagerð síðasta fundar lesin og nafnakall.

Margrét formaður kallaði Guðríði fráfarandi formann upp og færði henni rós og nældi í hana formannsnælu.

Orð til umhugsunar var í höndum Ásborgar. Hún talaði út frá Degi náttúrunnar sem haldinn er 16. september ár hvert. Hún lagði út frá íslenskri náttúru sem hefur mótað okkur sem þjóð og tengdi við ýmis verkefni sem hún var með á sinni könnu sem ferðamálafulltrú. Verkefnin, líkt og náttúran, gátu verið erfið og kerfjandi og reynt á þolinmæðina. Ásborg undirstrikaði mikilvægi þess að ganga vel um náttúru landsins og auðlindir þess.

Margrét fór yfir starfið sem fram undan er. Hún lagði áherslu á að konur á fundarsvæðum tæki að sér að undirbúa fundina eins og ákveða fundarstað,  fundarefni, finna konu til að fara með Orð til umhugsunar, panta veitingar o.fl.

Næsti fundur er 26. október og er áætluð afmælisferð sem enn er í mótun. 27. nóvember er fundur með jólaívafi og búið er að bóka Rauða húsið á Eyrarbakka fyrir þann fund.

Hugmyndavinna um hvað Espilonsystur vilja kynna sér eða fræðast um í vetur fór fram í litlum hópum. Margrét minnti á þá miklu þekkingu sem er til staðar í hópnum okkar sem vert væri að nýta.

Hugmyndir úr hópavinnunni sem við gætum unnið með: Húmor og gleði, þakklæti, hlúa vel að hver annarri, stuðningsnet, kærleikur, jákvæðni og móttaka flóttabarna. Tvær Epsilonsystur eru nýkomnar frá Póllandi og kynntu sér hvernig staðið er að þeim málum þar. Margrét benti á að hægt væri að vinna út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Þessi hugmynd kom fram á framkvæmdaráðsfundi DKG.

Happdrættisvinningurinn féll að þessu sinni í hlut Margrétar Ísaksdóttur.