Fundur í Lesstofu Bókasafns Árborgar

Þegar í lesstofuna kom gátu systur andað léttar og látið fara vel um sig í hugglegu umhverfi.

Margrét Guðmundsdóttir formaður setti fund og bauð systur velkomnar og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Að þessu sinni var notast við rafmagnskerti vegna eldfims umhverfis.

Orð til umhugsunar var Eydís Katla með. Hún talaði um vináttuna og ræddi hana út frá ýmsum sjónarhornum. Hvernig vinátta myndast á hinum ýmsum æviskeiðum og hve dýrmæt hún er. Hún vitnaði í ýmis rit um vináttu og las upp ljóð sem heitir Vinur. Eitt einkunnarorða Epsilonsystra er vinátta eins og Eydís Katla kom inn á.

Margrét fór yfir fréttir af starfi. Hún sagði frá vefnámskeiði á vegum DKG sem hún væri að fara á seinna í dag sem fjallar um hvernig byggja á upp sterkari kvenleiðtoga. Námskeiðið er í San Fransisco en hún notar tæknina – situr heima fyrir framan tölvuna. 

Hún bað systur um að taka frá 10. -11. maí fyrir Vorþingið sem haldið verður í Salnum í Kópaogi.

Hún minntist á Evrópuráðstefnu í Brighton á Englandi á næsta ári og einnig er alþjóðleg ráðstefna í New Orleans í Bandaríkjunum. Margrét sagði að hægt væri að sækja um styrki til samtakanna ef viðkomandi vildi halda fyrirlestur á ráðstefnunni. Fleiri styrkir eruí boðið hjá samtökunum. Hægt er að sækja um styrk fyrir einstaklinga og málþing (Lucille Corenett styrkur).

Ákveðið var að halda málþing. Umræður spunnust um efni sem hægt væri að fjalla um á því málþingi. Nokkrar hugmyndir voru bornar upp en ekkert ákveðið. Niðurstaðan vaðr sú að systur skyldu skrifa á Fb-síðuna tillögur þegar að andinn kæmi yfir þær.

Happdrættið var á sínum stað. Harpa fékk vinninginn.

Margrét Blöndal kom á fundinn. Margrét hefur unnið í tvö ár sem deildarstjóri menningar- og upplýsingadeildar Árborgar. Hún sagði systrum frá frábæru starfi sem unnið er á Bókasafni Árborgar með áherslu á að auka vægi barna- og fjölmenningar. Margrét sagði frá nokkrum verkefnum sem þau hafa unnið að og eru að fara af stað með. Eitt verkefnanna frá 2023 er Barnabókahetjur heims sem styrkt var af Bókasafnssjóði. Í skólum Árborgar eru töluðu yfir 30 tungumál og markmið verkefnisins var að eignast barnabækur á öllum þessum tungumálum og leita að helstu bókmenntahetjum heims á borð við Línu langsokk. Takmarkið náðist og nú er hægt að finna bækur á yfir 40 tungumálum á barnabókadeildinni. Þar er líka vinsæl búiningadeild með búningum helstu barnabókhetja frá hinum ýmsum löndum.
Það er líf og fjör á Bókasafni Árborgar. Á bóksafnið kemur fólk að ná sér í bækur eða bara til að vera, dansa einu sinni í mánuði og tala íslensku á hverjum fimmtudegi. Næstu verkefni eru m.a.: Gefum íslensku séns og Burt með fordóma í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Suðurlands með þátttöku barna úr tónlistarskólum og leikskólum á svæðinu. Til að fjármagna þessi verkefni hefur gengið vel að fá styrki úr sjóðum.

Fundi var slitið um kl. 11. Á efri hæð bóksafnsins var byrjað að föndra eitthvað draugalegt og ógnvekjandi fyrir hrekkjavökuna.

Farið  var yfir í tískuverslunina Motivo í fordrykk og sumar systur keyptu sér eitthvað fallegt með afslætti. Þaðan var haldið yfir á veitingastaðinn Fröken Selfoss þar sem við borðuðum og spjölluðum saman í huggulegheitum. 

Epsilonsystur funda á Bókasafni Árborgar 26.10.24