Fundur á Hafinu Bláa

Aneta og Margrét kynna Erasmus+ verkefni.
Aneta og Margrét kynna Erasmus+ verkefni.

Margrét formaður bauð systur velkomna, setti fund og kveikti á kertum. Guðlaug, sem ritaði fundargerð síðast fundar, las upp fundargerð frá bókafundinum í Hveragerði.

Orð til umhugsunar var fyrst á dagskrá. Dagbókarskrif - Sigríður Guðnadóttir las úr dagbók sem hún byrjaði að halda fyrir tveimur árum. Dagurinn sem varð fyrir valinu var 4. mars sl. þegar hún fór í Smáralind og lenti þar í "ævintýri." Ævintýrið endaði vel.

Margrét sagði okkur fréttir af starfi m.a. frá landsambandsþinginu - 50 ára afmælisþing Delta Kappa Gamma á Íslandi sem haldið verður 10. maí nk. í Salnum í Kópavogi og um kvöldið er hátíðardagskrá og hátíðarkvöldverður á Hótel Reykjavík Grand.

Nú fengu systur í hendur afmælissöng sem Deltakonurnar Theodóra Þorsteinsdóttir og Jónína Erna Arnardóttir sömdu í tilefni afmælisins. Systur sungu tvisvar yfir afmælissönginn og fóru með textann heim til að æfa sig.

Margrét sagði enn fremur frá vorferð Epsilondeildar sem farin verður til Deltadeildar laugardaginn 26. apríl nk.

Rætt var um málþing sem Epsilondeild ætlar að halda í haust.

Kynning á Erasmus+ verkefni sem Aneta og Margrét tóku þátt í hjá Skólaþjónustu Árborgar en verkefnið fjallar um inngildandi skólastarf með áherslu á áfallamiðaða nálgun við móttöku flóttafólks og nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Aneta var með stutta kynningu um verkefni sem hlaut Menntaverðlaun Suðurlands sem felur í sér íslenskukennslu fyrir foreldra grunn- og leikskólabarna með fjölmenningarlegan bakgrunn.

Fundi var slitið eftir að dregið var úr happdrættinu. Vinninginn hlaut Bolette.

Það var vel látið af matnum á Hafinu Bláa og umhverfið er magnað. Það er eitthvað við það að snæða mat, leggja frá sér hnífapörin og horfa út haf eins langt og augað eygir. Hafið bláa, hafið.