Fundað að Sólheimum í Grímsnesi
Landsambandsþing DKG veður haldið á Hótel Örk 13.-14. maí næstkomandi. Það er menntamálanefnd, landsambandsstjórn DKG og Epsilondeild sem sjá um þingið.
Heimasíða samtakanna hefur verið endurhönnuð og nú er auðveldara að rata um síðuna í upplýsingaleit. Þar er að finna upplýsingar um alþjóðlegar ráðstefnur innan svæða alþjóðasambandsins sem haldnar eru annað hvert ár (á oddatölu). Næsta alþjóðaráðstefnan á Evrópusvæðinu verður haldin í Tampere, Finnlandi 26.–29. júlí 2023.
Epsilondeild ætlar að standa fyrir málþingi um læsi, í víðum skilningi, fyrir öll skólastigin. Hugmyndin kom upp á fundi í haust þegar rætt var um hvernig Epsilondeild gæti vakið athygli á starfi DKG í nærumhverfi sínu. Guðríður er búin að fá vilyrði fyrir salnum í Fsu. Málþingið verður haldið seinni part dags næsta haust. Dagsetning er enn óákveðin.
Eftir fréttir af starfi kynnti Sigríður Guttormsdóttir starfsemi DKG fyrir gestum og félögum. Konum er boðin þátttaka í DKG. Það sem konum finnst þær fá út úr að vera í samtökunum er: fræðsla, gleði, vinátta, fagleg vitund og tengslanet (byggt á könnun sem lögð var fyrir félagskonur).
Bolette flutti orð til umhugsunar. Hún var á persónulegum nótum og fjallaði um formæður sínar, ömmur og mömmu. Henni datt þetta efni í hug því það var alþjóðlegur baráttudagur kvenna í gær, 8. mars. Formæður hennar voru allar sterkar fyrirmyndir. Þær gengu menntaveginn og unnu úti sem ekki var algengt á þeim tíma.
Bolette er fædd og uppalin í Danmörku. Hún flutti til Íslands ung kona, giftist íslenskum manni og eignaðist með honum þrjár dætur.
Við fengum fræðslu, eftir fund, um Sesseljuhús umhverfissetur sem er merkileg bygging. Sesseljuhús er timburhús með grasþaki og voru sjónarmið umhverfisverndar í hávegum höfð við hönnun og smíði þess. Lambsull var notuð til að einangra veggi og gólf, magnið sem notað var samsvarar ull af um það bil 2.400 kindum. Arkitekt Sesseljuhúss er Árni Friðriksson.
Í samkomusal Sólheima sáum við fræðslumynd um sögu Sólheima og frumkvöðulinn Sesselju Sigmundsdóttir sem stendur á bak við þetta einstaka samfélag.
Áður en við snæddum á Grænu Könnunni sáum við tiltölulega nýopnað safn um Sólheima. Þetta er mjög skemmtilegt og vel uppsett safn.
Maturinn sem við fengum á Grænu Könnunni var afbragð. Það var skemmtilegt að setjast saman og spjalla eftir frábæran fund og fræðslu.