Fundur á Stokkseyri
Á fundinum talaði Sigríður Indriðadóttir hjá Saga Competence um jákvætt og hvetjandi starfsumhverfi. Hún nefndi að það væri nauðsynlegt að fundirnir væri skemmtilegir og að öllum liði vel. Ósiðum yrði að láta af sem gæti falist í hópamyndunum og slíku. við yrðum að setja okkur mörk, ekki spara hrósyrðin og velja að hafa áhrif til góðs. Guðríður hreifst af fyrirlestrinum og sagði að það væri ekki úr vegi að við fengjum Sigríði til okkar á fund við tækifæri.
Við töluðum um hvernig við gætum fengið fleiri konur til liðs við okkur. Það spruttu upp skemmtilegar og gagnlegar umræður um skilyrði og framkvæmdir. Markmiðið okkar er að reyna að fjölga einni til tveimur konum í deildinni okkar á ári.
Upp kom hugmynd um að Epsilon-systur stæðu fyrir málþingi um læsi í víðum skilningi fyrir öll skólastigin. Það væri liður í að vekja athygli á DKG í nærumhverfi okkar.
Elinborg sá um Orð til umhugsunar. Hún flutti ljóð eftir Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara sem birtist í bókinni Í dag- um lífið, tilveruna og trúna. Hugleiðingar 366 Íslendinga. Ljóðið fjallaði um lífið og það að eldast. Elinborg sagði í framhaldi af þessu frábæra ljóði að það væri hægt að vera þakklátur fyrir svo margt.
Við erum strax farnar að hlakka til næsta fundar sem verður með jólaívafi og haldinn heima hjá Guðríði, miðvikudag 23. nóvember.
Og svo er það bókafundurinn góði sem verður hjá Elinborgu á Iðu, þann 14. Janúar 2023.