Jólafundur á Eyrarbakka

Margrét Steinunn og börnin hennar.
Margrét Steinunn og börnin hennar.

Jólafundur Epsilondeildar var haldinn í Betri stofunni á Eyrarbakka 27. nóvember 2024.

Að venju var kveikt á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Systur í undirbúningsnefnd jólafundarins fengu rauða rós í þakklætisskyni. Það þurfti ekki minna en vönd af rauðum rósum fyrir Margréti Steinunni og börnin hennar sem skemmtu systrum með ljóðaupplestri og söng. Arndís Hildur kynnti óútkomna ljóðabók og las upp úr henni nokkur ljóð. Við eitt ljóðanna, Miðnætursól á Fróni, samdi bróðir hennar, Guðjón Leó, lag og útsetti. Eftir ljóðalesturinn söng Margrét Steinunn og börnin hennar: Arndís Hildur, Hrönn og Guðjón Leó, ásamt Önnu Kristborgu litlu dóttur Guðbjargar, nokkur lög - þar með talið Miðnætursól á Fróni.


Söngurinn og ljóðaupplestur féll Epsilonsytrum afar vel í geð og létu aðdáun sína í ljós með lágværum andvörpum.

Dagskrárliðurinn Orð til umhugsunar var með óhefðbundnu sniði. Hver systir dró sitt gæfukort og las upphátt gullkornin sem á því stóð. Þær völdu einnig stein úr steinasafni Margrétar Steinunnar. Hún leiddi því næst hópinn í slökun og hugleiðslu – góður undirbúningur fyrir aðventuna.

Happdrættisvinningur féll í skaut Bolette að þessu sinni.

Epsilonsystur fóru síðan á jólahlaðborð í Rauða húsinu.

Gleðilega aðventu!

Jólafundur á Eyrarbakka 2024 (myndaalbúm).

 

Heimild: Fundargerð rituð af Ásgerði Eiríksdóttir.