Jólfundur í Vínstofu Friðheima í Reykholti
Eftir hefðbundna fundarsetningu var Guðríður formaður með hugleiðingar um starfsemi deildarinnar. Hún var að sjálfsögðu ánægð með hve margar konur gengu inn í deildina á þessu ári; sex konur með ólík starfsheiti en hafa á sinni könnu það hlutverk að fræða. Hún beindi því til systra sem buðu konunum að ganga inn í félagið að halda vel utan um þær með því að minna þær á fundi, bjóða þeim far á fundi o.s.frv. Hún kom líka með þá athyglisverðu staðreynd að þær systur sem eru leik-, grunn- og framhaldsskólakennara séu nær allar komnar á eftirlaun. Það þyrfti að bæta úr því með því að bjóða tveimur leik- og grunnskólakennurum að ganga til liðs við deildina á næstunni.
Guðríður fór yfir málþingið sem bar yfirskriftina Lykill að læsi sem haldið var í Fjölbrautaskóla Suðurlands í október síðastliðinn. Allar systur voru himinlifandi hve vel tókst til. Erna, Ingibjörg Þ., Margrét G. og Eydís unnu saman að undirbúningi. Erna Ingvarsdóttir ætlar að taka saman þingið þ.e. hvernig var staðið að undirbúningi og framkvæmd. Samantektin verður sett inn í fundarbók stjórnar.
Peningamál voru rædd. Það kom í ljós að deildin var ekki mjög illa stæð en það var samdóma álit fundarkvenna að það mætti hækka happdrættismiðagjaldið sem hefur verið óbreytt mjög lengi. Á næsta ári er deildin 35 ára og þá væri gaman að gera sér dagamun. Stundum þarf að borga fyrirlesurum, það þarf að geta tekið á móti gestum úr öðrum deildum og heimsótt deildir. Það var rætt um að hækka árgjaldið en það var fallið frá því en þessi í stað voru systur hvattar til að kaupa marga happdrættismiða á hækkuðu verði! Happdrættið er helsta tekjulind Epsilon-deildarinnar.
Sr. Sigríður Munda var með orð til umhugsunar. Hún valdið orðið: Hamingja. Hún fjallaði um hana út frá mörgum vinklum. Mjög gott erindi sem vakti mann til umhugsunar.
Veljum að vera hamingjusamar, hvað sem tautar og raular!
Gleðileg jól!