Lykill að læsi - málþing
Bjartey Sigurðardóttir talmeinafræðingur og verkefnisstjóri verkefnisins Lestur er lífsins leikur hjá Hafnarfjarðarbæ hélt erindi um snemmtæka íhlutun í fyrstu bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Markmiðið með verkefninu er að finna strax við upphaf skólagöngu nemendur sem þurfa á nánari greiningu að halda og/eða stuðningi og veita íhlutun við hæfi. Bjartey fjallaði einnig um mjög áhugavert læsisverkefni sem nefnt er LÆK og hefur það markmið að efla læsi og auka lestraráhuga allra nemenda á mið- og unglingastigum grunnskólanna í Hafnarfjarðarbæ. Rithöfundarnir Gunnar Helgason og Bergrún Íris Sævarsdóttir koma að verkefninu og ætla að skrifa 18 smásögur í samstarfi við kennara og nemendur á mið- og unglingastigi í níu grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar á þessu skólaári og gefa út í veglegri bók.
Hlíf Brynja Baldursdóttir deildarstjóri máls og læsis í Fellaskóla hélt erindi um „Draumaskóla“ samvinnuverkefni Fellaskóla, frístundaheimilisins Vinafells og leikskólanna Holts og Aspar með áherslu á málskilning, læsi, orðaforða, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf. „Draumskólinn“ leggur megináherslu á íslensku í öllu starfi og að allir kennarar séu íslenskukennarar. Hlutfall tví- og fjöltyngdra barna er nærri því 90 prósent og er íslenskt námsumhverfi þeirra að mestu í skólunum og á frístundaheimilinu.
Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands, hélt erindi sem hún nefndi Árangursrík kennsla –„Ég get“ þar sem hún fór yfir gildi góðra vísindarannsókna sem tengdar eru námi og framþróun. Hvernig þær geta styrkt kennara og auðveldað þeim að velja árangursríkar aðferðir við lestrarkennslu og læsi. Svava fjallaði einnig um Kveikjum neistann sem er rannsóknar- og þróunarverkefni í Grunnskóla Vestmanneyja með heildstæða nálgun á skólastarfið. Verkefnið hófst haustið 2021 og mun standa yfir í 10 ár. Verkefnið byggir á niðurstöðum færustu vísindamanna heims á sviði menntunar og heilbrigðis. Kveikjum neistann sýnir okkur hvernig orð verða til athafna og hvernig vísindi leiða til árangurs.
Það má með sanni segja að þetta hafi verið áhugavert málþing þar sem Bjartey, Hlíf Brynja og Svava fræddi okkur um lykilinn að læsi með mjög áhugaverðum erindum. Grunnurinn er málskilningur og orðaforði.
Stjórn Epsilondeildar og undirbúingsnefnd málþingsins á hrós skilið, og margar rósir, fyrir þá góðu hugmynd að efna til málþings um læsi, hrinda henni í framkvæmd og skipuleggja.