Síðasti fundar vetrar 2024
Fráfarandi formaður, Guðríður Egilsdóttir, hét því að haldið yrði veglega upp á 40 ára afmælið. Stofnfélagar voru mættir enda eru konurnar virkar í starfi Epsilon-deildar. Helga Halldórsdóttir í Gamma-deild kom á fundinn en hún var ein af stofnendum Epsilon-deildar og fyrsti formaður hennar. Hún ávarpaði systur í lok fundar.
Rósa Marta Guðnadóttir var með Orð til umhugsunar. Hún flutti texta sem Pálína Snorradóttir heitin flutti á fundi einhvern tímann. Hún gerði þetta í minningu og til heiðurs Pálínu sem lést fyrir tæpu ári. Rósa Marta flutti kveðju frá Landssambandinu en hún var fulltrúi þess á afmælisfundinum.
Þá var komið að aðalfundi. Sigríður Guttormsdóttir var kosin fundarstjóri. Fyrsta mál á dagskrá var skýrsla stjórnar (2022-2024) sem Guðríður formaður flutti. Guðrún S. ritari tók saman skýrsluna. Guðríður flutti síðan ræðustúf og þakkaði stjórninni gott samstarf og öllum systrum fyrir góða samvinnu. Hún sagðist hafa lagt ríka áherslu á að gera samtökin sýnileg í nærumhverfinu. Það er samdóma álit systra að hún hafi gegnt formannsstarfinu afar vel og náð markmiði sínu.
Eydís Katla gjaldkeri lagði fram reikninga fyrir árið 2022 og 2023 og voru þeir samþykktir. Eydís Katla hefur verið gjaldkeri deildarinnar í 16 ár eða síðan 2008. Rósa Marta afhenti henni rós fyrir þrautseigju og dugnað í starfi gjaldkera.
Ný stjórn var kynnt til leiks en í henni sitja: Margrét Guðmundsdóttir, Eydís Katla Guðmundsdóttir, Ásgerður Eiríksdóttir, Harpa Björnsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir. Margrét G. gaf kost á sér í formannsstarfið og var það samþykkt einróma. Guðríður Egilsdóttir formaður,
Guðrún Sigríks Sigurðardóttir ritari og Ester Hjartardóttir meðstjórnandi gengu úr stjórn.
Félagsgjaldið Epsilon-deildar hefur verið það sama undanfarin ár eða tíu þúsund krónur og rennur beint til Landssambandsins. Tillaga var borin upp að félagsgjaldið yrði hækkað um tvö þúsund krónur. Tvö þúsund krónurnar rynnu óskertar til Epsilon-deildar. Það var álit systra að það yrði að vera til sjóður sem hægt væri að ganga í ef þyrfti að borga ófyrirséðan kostnað eins og leigu á sal, borgar fyrirlesurunum o.s.frv. Tillagan var samþykkt einróma.
Aðalfundi var slitið en fundurinn hélt áfram. Dr. Eva Harðardóttir aðjúnkt við menntavísindasvið HÍ og stjórnarformaður félags Sameinuðu þjóðanna tók við með erindið sitt. Dr. Eva Harðardóttir er Hvergerðingur. Hún hefur búið víða um land og í útlöndum. Hún starfaði um árabil fyrir UNICEF í Malavi við stefnumótun og innleiðingu verkefna á sviði félags- og mannréttinda og menntamála. Hún hefur víðtæka reynslu af því að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Dr. Eva fjallaði vítt og breitt um viðfangsefnin sín. Doktorsritgerðin hennar fjallaði um hnattræna borgarvitund sem „vísar til þess að hafa vitund um víðara samfélag og sameiginlega mennsku. Hún leggur áherslu á að fólk sé hvert öðru háð í pólitísku, efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu tilliti og að hið staðbundna, þjóðlega og alþjóðlega sé samtvinnað (UNESCO, 2015, þýðing Páll Ólafsson). Góður rómur var gerður að erindi Evu.
Happdrættið var á sínum stað og það var Gunnvör sem hlaut vinninginn að þessu sinni. Fundi var síðan slitið og slökkt á kertum: vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Tvíréttaður matseðill var á boðstólum í Skyrgerðinni í tilefni af 35 ára afmæli Epsilon-deildar. Systur héldu glaðar heim af vel heppnuðum fundi.
Gleðilegt sumar!