Lesið hér fréttabréf Alfadeildar fyrir þetta starfsár
Starfsárið hjá Alfadeild hófst á heimsókn okkar til Umboðsmanns barna. Þar tók Salvör Nordahl á móti okkur og sagði okkur frá starfi og verkefnum umboðsmanns. Hlutverk umboðsmanns barna er skilgreint í lögum um embættið og er meginhlutverk hans að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmanni er ætlað að vekja athygli á réttinda-og hagsmunamálum barna almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum. Helstu verkefni umboðsmanns felast í að veita fræðslu, ráðgjöf og aðstoð til þeirra sem leita til embættisins og samskiptum við fagfólk og félagasamtök sem vinna að málefnum barna. Þá veitir umboðsmaður umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Þá sagði Salvör okkur frá Barnaþingi 2019 sem haldið var í Hörpu í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þátttakendur voru börn víðsvegar að valin úr tilviljunarkenndu úrtaki. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt þing er haldið um málefni barna en stefnt er að því að halda slíkt þing annað hvert ár. Kynning umboðsmanns var afskaplega áhugaverð og fræðandi fyrir okkur Alfa-konur og markaði ánægjulega upphaf starfsársins.
Nóvemberfundurinn var haldinn í Hofstaðaskóla í Garðabæ. Fundurinn var sameiginlegur fundur Alfadeildar og Lamdadeildar. Hafdís Bára skólastjóri í Alfadeild tók fallega á móti okkur og skapaðist strax góð stemning á fundinum. Efni fundarins var starfendarannsóknir og ræddi Hjördís Þorgeirsdóttir um starfendarannsóknir, bæði almennt en greindi einnig frá starfendarannsóknum sem kennarar hafa stundað í Menntaskólanum við Sund. Kynning Hjördísar var áhugaverð og gaman að sjá að slík vinnubrögð séu viðhöfð í framhaldsskólunum.
Jólafundurinn var haldinn á Mími restaurant á Radisson Blu – Hótel Sögu. Fundurinn var hádegisverðarfundur þar sem tími gafst til að spjalla og njóta góðra veitinga. Gerður Kristný rithöfundur las úr ljóðabókum sínum, bæði eldri bókum en einnig úr níundu ljóðabók sinni Heimskauti sem út kom fyrir jól 2019. Gerður Kristný er ekki aðeins ástsælt samtímaskáld og frænka Sjafnar í Alfadeild var afskaplega skemmtileg og var góður rómur gerður að upplestri hennar.
Janúarfundurinn var svokallaður vinkonufundur. Það er nýlunda hjá Alfadeild en þá máttu félagskonur taka með sér einn gest (vinkonu, systur, dóttur eða móður) á fundinn. Efni fundarins var núvitund í dagsins önn. Bryndís Jóna Jónsdóttir ráðgjafi og aðjúnkt á menntavísindasviði sagði frá því hvað núvitund er og hvernig við getum nýtt okkur hana lífi okkar og starfi. Þá ræddi hún sérstaklega um núvitund í skólastarfi. Fundurinn sem haldinn var í Austurbæjarskóla var ágætlega sóttur.
Næsti fundur verður í febrúar en þá beinum við athygli okkar að miðlalæsi og þriðja æviskeiðinu.