Aðalfundur Deltadeildar 21.05. 2024
6. fundur Deltadeildar og aðalfundur var haldinn á Hótel Vesturlandi, Borgarnesi þann 21. maí 2024. Gestur fundarins var Árný Elíasdóttir forseti landssambands DKG.
Halldóra Jónsdóttir formaður kveikti á kertum og setti fund. Hafði síðan nafnakall og fór yfir fundargerð síðasta fundar.
Valgerður Janusdóttir flutti okkur mjög áhugaverða umfjöllun um reiði og ýmsar birtingarmyndir hennar í orði til umhugsunar.
Árný Elíasdóttir forseti landssambands DKG flutti erindi þar sem hún fjallaði um samtökin, markmið þeirra og hvað samtökin geta gert fyrir okkur. Nefndi hún t.a.m. sjóði sem félagskonur geta sótt í náms- og ferðastyrki sem og menntunarstyrki sem konum utan samtakanna stendur til boða. Í síðari hluta erindi síns fór Árný yfir helstu niðurstöður könnunar sem samtökin lögðu fyrir félagskonur í nóvember 2023. Að loknu erindinu voru umræður. Halldóra formaður færði Árnýju rós og þakkir fyrir erindið og heimsóknina til deildarinnar. Í kveðju sem Árný sendi Halldóru eftir heimsóknina kom fram að henni hafi fundist mjög gaman að heimsækja Deltadeild. Þar hafi hún upplifað vináttu, gleði, fagmennsku og afslappað andrúmsloft. Taldi hún að það ætti að vera eftirsótt að komast í deildina og vonaði að við næðum að laða til okkur öflugar konur.
Að loknum erindum Valgerðar og Árnýjar dreif Guðlaug Sverrisdóttir okkur út á gólf þar sem hún kenndi okkur dans sem nemendur hennar á yngsta stigi í Grundaskóla lærðu flótt og vel. Við stigum danssporin af miklum móð undir frábærri stjórn hennar og settumst svo glaðar niður við aðalfundarstörfin. Jónína Eiriksdóttir sá um fundarstjórn og Halldóra Jónsdóttir ritaði fundargerð. Halldóra Jónsdóttir fráfarandi formaður Deltadeildar flutti skýrslu stjórnar og Sóley Sigurþórsdóttir gjaldkeri deildarinnar kynnti skýrslu sína og lagði fram reikninga. Bæði skýrsla formanns og reikningar gjaldkera hlutu samþykki. Fundarkonur samþykktu einnig hækkun á gjaldi til deildarinnar sem greitt er samhliða árgjaldi samtakanna.
Því næst lagði formaður uppstillingarnefndar, Jónína Erna Arnardóttir, fram eftirfarandi tillögu að stjórn Deltadeildar næsta kjörtímabil, 2024-2026:
- Theodóra Þorsteinsdóttir, formaður
- Sigurveig Sigurðardóttir, ritari
- Inga Dóra Halldórsdóttir, meðstjórnandi
- Jónína Erna Arnardóttir, meðstjórnandi
Eftirfarandi félagskonur gefa áfram kost á sér til starfa:
- Sóley Sigurþórsdóttir sem gjaldkeri
- Ásta Egilsdóttir sem vefstýra
- Guðlaug Sverrisdóttir og Brynja Helgadóttir sem endurskoðendur reikninga
Samkvæmt hefð innan Deltadeildar skipa fráfarandi stjórnarkonur næstu uppstillingarnefnd sem verða að þessu sinni þær Halldóra Jónsdóttir, Elísabet Jóhannesdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Félagskonur samþykktu tillögur og framboð til starfa næsta kjötímabil með lófaklappi.
Að kosningum loknum sleit Halldóra fráfarandi formaður aðalfundi og þakkaði Deltasystrum fyrir góða mætingu á fundum og ánægjulega samvinnu á allan hátt og þeirra góða starf við undirbúning funda og val á fundarefnum.
Undir liðnum Önnur mál upplýsti Halldóra okkur um að gömul skjöl Deltadeildar hafi verið varðveitt í Héraðsskjalasafni Akraness en æskilegast væri að varðveita öll skjöl DKG og deilda í Kvennasögusafni. Söfnin tvö hafa sammælst um að skjölin verða áfram í Héraðsskjalasafninu, yrðu svo lánuð í millisafnaláni ef til þess kæmi. Kvennasögusafnið hefur þegar fengið skjalaskrár Delta deildarinnar.
Jónína Eiríksdóttir ræddi um vor-og haustfréttabréfin og sagðist sakna þess að fá þau ekki útprentuð. Taldi að færri læsu þau fyrir vikið og að þau lægju ekki frammi á vinnustöðum, sem er góð kynning á samtökunum. Árný þakkaði fyrir góða ábendingu.
Að lokum fékk gamla stjórnin rósir fyrir vel unnin störf og nýrri stjórn óskað velfarnaðar.
Yfir ljúffengum kvöldverði voru seldir happdrættismiðar og fékk Sigrún Jóhannesdóttir vinninginn að þessu sinni.
Gleðilegt sumar.
Fréttin er byggð á fundargerð fundarins.
ÁE