Andlát
Elskuleg systir okkar í Deltadeild, Kristín Rannveig Thorlacius, sem fædd var 30, mars 1933 lést sunnudaginn 2. júní síðastliðinn.
Kristín fæddist í Austurbæjarskólanum í Reykjavík, lauk kennaraprófi 1981 og réttindaprófi fyrir skólabókasöfn frá HÍ 1994. Kristín var gift sr. Rögnvaldi Finnbogasyni og bjó víða á landinu þar sem starf eiginmannsins réði búsetunni. Auk þess að stýra stóru heimili var hún kennari og síðast skólasafnskennari í Borgarnesi. Hún hafði einstakt vald á íslensku og þýddi fjölda bóka og stundaði ritstörf. Hún sýndi okkur konum gott fordæmi með lifandi þátttöku sinni og starfi að samfélagsmálum, var meðal annars oddviti í Staðarsveit og stoltur stofnandi deildarinnar okkar 2. maí 1987. Lengi tók Kristín þátt í stjórn deildarinnar auk þess sem hún auðgaði starfið með því að leggja til orð til umhugsunar, upplestur úr bókum og ljóðalestur svo eitthvað sé nefnt. Um árabil hélt deildin stjórnarfundi á heimili þeirra hjóna í Borgarnesi, sem var einstakt að allri umgjörð og menningu og við minnumst einnig fallegra félagsfunda þar.
Deltadeildin hefur misst merkilegan félaga og minnisstæðan, sem gekk glaðlega fram í að rækta og styðja starfið með vináttu sinni, trúmennsku og hjálpsemi.
Við vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.
Guð blessi minningu Kristínar Rannveigar Thorlacius.