Fundur í Deltadeild 23.11. 2023
Þriðji fundur Deltadeildar haldinn í Héraðsskólanum í Reykholti 23. nóvenber 2023. Konur úr uppsveitum Borgarfjarðar sáu um undirbúning fundarins í samráði við formann. Á fundinn mættu átta Deltakonur. Fundurinn hófst á því að Halldóra formaður setti fundinn og Jónína Eiríksdóttir kveikti á kertum.
Þórunn Reykdal var með Orð til umhugsunar sem hún nefndi Rætur mínar. Minntist hún þar foreldra sinna og sagði okkur frá æskuárum sínum og fjölskyldu. Foreldrar Þórunnar voru bæði listfeng og mikið hagleiksfólk og liggja eftir þau mörg falleg verk. Sýndi hún okkur sjálfsmynd unna í mósaik sem móðir hennar gerði úr íslensku grjóti og myndskreytingar sem faðir hennar gerði við jólasögu sem hann samdi. Sagði Þórunn okkur einnig frá sögunni en til stendur að gefa hana út.
Þá var gert hlé á dagskrá og kvöldverður snæddur á Fosshóteli í Reykholti. Að kvöldverði loknum var dagskrá haldið áfram í Héraðsskólanum þar sem boðið var upp á kaffi og dýrindis súkkuladi souffle.
Þórunn Reykdal var með aðalerindi fundarins þar sem hún fjallaði um skáldsöguna Hýbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson og fjallar um vesturfara. Þar segir frá ævi og örlögum Ólafs fólín og konu hans Sæunnar. Á bókarkápu segir m.a.: „Ólafur fíólín er kenndur við hljóðfærið sem Jörundur hundadagakonungur gaf föður hans á leið sinni úr landi en að fiðlunni frátekinni er fátt konunglegt við lífhlaup Ólafs í Borgarfirði og norðan heiða“. Ólafur og Sæunn fluttu til Vesturheims eftir að hafa búið við mikla fátækt og basl hér á Íslandi og tókst þeim að nema land vestan Winnipeg-vatns og byggja þar upp nýtt líf. Þórunn fór í máli og myndum yfir sögusvið bókarinnar eins og það gerist hér á Íslandi. Erindið var hluti af námskeiði í umsjá Þórunnar sem nefnist Hýbýli vindanna og Lífsins tré – Myndbrot af söguslóðum. Námskeiðið er haldið á Kirkjubóli í Borgarfirði og er á vegum Litlu menntabúðinnar sem er í eigu Ingibjargar Kristleifsdóttur, fyrrum félagskonu í DKG. Síðasta námskeið var haldið nú í september en þá tók höfundurinn Böðvar Guðmundsson þátt í því og mun væntanlega gera svo aftur þegar námskeiðið verður endurtekið með vorinu. Að loknum áhugaverðu erindi Þórunnar voru málin rædd.
Dregið var í happdrættinu og fékk Jensína vinninginn að þessu sinni. Fundi lauk kl. 20.30 og héldu konur ánægðar til sín heima.
Byggt á fundargerð.
ÁE