Fundur í Deltadeild 25.10. 2023
Annar fundur Deltadeildar haldinn í Menntaskólanum í Borgarnesi 25. október 2023. Borgarneskonur sáu um undirbúning fundarins í samráði við formann. Gestir fundarins voru konur úr Lambdadeild. Fundurinn hófst á því að Halldóra formaður setti fundinn, bauð gesti velkomna og kveikti á kertum.
Fyrst á dagskrá var erindi sem sóknarpresturinn í Borgarprestakalli sr. Heiðrún Helga Bjarnadóttir flutti og nefndist “Að mæta fólki í augnhæð”. Þar fjallaði hún um leið sína að prestskap sem var mjög áhugaverð. Hún lauk guðfræðinámi við HÍ og fór eftir það til Kaupmannahafnar og lærði trúarbragðafélagsfræði. Hún vann síðan með fylgdarlausum ungmennum (15-25 ára) á flótta. Hún lýsti því síðan hvernig þau fræði sem hún hafði kynnt sér byggðu á fjarlægð og að vinna samkvæmt þeim hefði engum árangri skilað. Það hefði ekki verið fyrr en hún kynntist fræðum (dive-in) sem byggði á jafningagrunni sem hún for að sjá árangur af starfinu. Hún fór síðar til Sjanghæ og vann þar með foreldralausum ungmennum. Þar var unnið með lifsleikni- og starfsþjálfun og var hlutverk Heiðrúnar að fylgjast með persónuleikaþróun. Eftir þá vinnu fór hún að kenna sómölskum konum í Kaupmannahöfn sem voru á framhaldsskólastigi að læra dönsku. Þar reiknaði enginn með að það myndi takast, hvorki kerfið né þær sjálfar. En með fyrrnefndri jafninganálgun og óhefðbundnum kennsluaðferðum fór árangur að nást. Einnig kom í ljós að konurnar bjuggu yfir miklum félagslegum styrkleikum sem þær gátu síðan miðlað til danskra samnemenda. Eftir að Heiðrún Helga gerðist sóknarprestur nýtti hún m.a. það sem hún lærði af þeim til að setja af stað verkefnið “Borgarnes borðar saman”. Einnig vann hún að móttöku flóttafólks frá Úkraínu á Bifröst. Erindið kjarnaðist þannig í heiti þess: Að mæta fólki í augnhæð.
Næst á dagskrá var Signý Óskarsdóttir Þróunarstjóri í Menntaskóla Borgarfjarðar með erindið STEAM nám og kennsla. Hún fjallaði um upphaf og vegferð þróunarvinnu sem byggði á ýtarlegum gögnum og rannsóknum; vinnustofum með nemendum og kennurum í MB. Fengnir voru rýnihópar í efstu bekkjum grunnskóla á Vesturlandi, Ungmennaráð Vesturlands kom að málinu,kennarar á unglingastigi og fulltrúar háskóla - atvinnulífs - menntamála - fyrrum nemenda o.fl. Niðurstöður voru síðan flokkaðar í þrjá flokka: nám, kennsluaðferðir og skipulag og svo náms- og kennsluumhverfi. Í ljós kom að færniþættir féllu vel saman við mikilvægustu færniþætti WEF.
Tillögur starfshópsins voru:
- Allir nemendur MB taka STEAM* greinar i Framtíðarveri skólans sem nú nefnist Kvika.
- (Kvikan er skapandi rými með öllum tæknibúnaði sem nemendur hafa frjálsan aðgang að)
- Allir nemendur MB fá sérstaka þjálfun i stafrænni hönnun og miðlun. (Nú hefur verið ákveðið að
- stafræn hönnun verður í öllum áföngum).
- Allir nemendur MB taka þátt í lífsnámi. (Lífsnámið kom inn fyrir óskir frá nemendum
- og felur m.a. í sér umfjöllun um jafnrétti, kynvitund, geðheilbrigði, fjármál o.fl. o.fl.)
- Allir nemendur MB geta tekið valáfanga frá erlendum skólum.
- Allir nemendur MB geta valiò sér þriðja tungumál.
- Öll kennsla í MB fer fram i lotum.
- Í MB er ein stúdentsbraut sem kvíslast í sérhæfingar á fræðasviðum.
*STEAM greinarnar samanstanda af vísindum, tækni, verkfræði, skapandi vinnu og stærðfræði (e. Science, Technology, Engineering, Arts og Math).
Skólaþróunin er og verður síðan unnin í áföngum og þróast með innleiðingu og endurskoðun önn frá annar.
Eftir þessi einstaklega áhugaverðu erindi færði hópurinn sig yfir í Landnámssetrið. Meðan beðið var eftir matnum flutti Jónína Erna Orð til umhugsunar. Þar fjallaði hún um jafnrétti og að konur væru enn að læra ný hugtök eins og þriðju vaktina sem afhjúpuðu ósýnilega vinnu og ábyrgð kvenna á heimilinu. Mikilvægt umhugsunarefni.
Happdrættið var á sínum stað og fékk Sigurveig Sigurðardóttir vinninginn að þessu sinni.
Eftir gott spjall þakkaði Halldóra gestunum fyrir komuna og samveruna og sleit fundi kl. 21:00. Sigurborg Kristjánsdóttir formaður Lambdadeildar þakkaði fyrir móttökurnar og bauð Delta konur velkomnar í heimsókn.