Fundur í Deltadeild 27.09. 2023
Fyrsti fundur Deltadeildar veturinn 2023-2024 haldinn í Bragganum við Nauthólsveg í Reykjavík miðvikudaginn 27. september 2023. Formaður Deltadeildar Halldóra Jónsdóttir setti fund, Sóley Sigurþórsdóttir kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og Elísabet Jóhannesdóttir las fundargerð síðasta fundar.
Halldóra flutti fréttir úr starfinu og sagði meðal annars frá landsambandsþinginu, sem haldið var í Hveragerði í vor en sex konur frá Deltadeild sóttu þingið. Hún ræddi einnig framkvæmdaráðsfundi Landsambandsins sem var í byrjun september og sagði nýja stjórn undir forystu nýs forseta Landsambandsins Árnýjar Elíasdóttur, Gammadeild, leggja áherslu á að styrkja og styðja við starfsemi deilda og skoða reglulega hug félaga til starfseminnar, þ.e. hvað er gott og hvað má betur fara.
Aðalerindi fundarins var í höndum Sigrúnar Jóhannesdóttur sem hún nefndi Hvað viljum við fá úr úr Delta Kappa Gamma? Þar ræddi hún meðal annars fækkun meðlima samtakanna á alþjóða vísu síðustu ár og þá áskorun sem því fylgir. Samtökin voru stofnuð sem kvennahreyfing í Texas 1929 en stofnandi þeirra var Anna Webb Blanton. Sigrún nefndi sérstaklega tvo heiðursfélaga DKG, þær Vigdísi Finnbogadóttur og Dolly Parton sem hefur allt sína æfi unnið að eflingu læsis.
Sigrún fór yfir sýn DKG - Forystukonur í fræðslustörfum til áhrifa á menntun un allan heim - og sagnir markmiða samtakanna - hvetja, efla, heiðra, styðja, veita, styrkja, fræða - og vill hún bæta við sögnunum skapa, breyta og skemmta. Síðan setti Sigrún af stað hópvinnu þar sem fundarkonur ræddu hvernig efla mætti samtökin og hvers vegna þær veldu að vera í þeim. Að lokum sýndi Sigrún okkur fjölda mynda frá ferðalögum hennar á ráðstefnur og þing DKG erlendis og vildi hvetja Delta konur til að sækja þau. Sagði hún þátttökuna í félagsstarfinu hafa gefið henni mikið, bæði fræðilega og félagslega og hún kynntist mörgum frábærum félagskonum um allan heim. Það víkkar mjög sjóndeildarhringinn og það sem DKG þýðir.
Á meðan fundakonur gæddu sér á dýrindis Tortilla hlaðborði flutti Halldóra formaður Orð til umhugsunar. Ræddi hún um sýn sína á samtökin og hvað það hefur gefið henni að starfa sem formaður deildarinnar. Sagði hún frá nýrri framkvæmdaáætlun stjórnar og hugleiðingum Árnýjar landssambandsforseta á framkvæmdaráðsfundinum, um hvað félagskonur í DKG eru einsleitur hópur og að tími væri kominn til að breyta því.
Undir liðnum önnur mál var rætt um fjölgun í deildinni og væntanlega heimsókn Lambdakvenna en þær munu heiðra okkur með nærveru sinni á næsta fundi sem haldinn verður 25. október í Menntaskóla Borgarfjarðar. Einnig kom fram að stefnt er að fundi með Nýdeildinni þegar fer að vora.
Happadrættisvinningur kvöldsins féll í skaut Sigrúnar og fékk hún Iittala sælgætisskál og fullan poka af Trufflukúlum.
Fundi var slitið kl. 20.30 og héldu Deltakonum heim á leið afar sáttar í sinni með góðan og gefandi fund.