Fundur í Deltadeild 8. mars 2023
Fjórði síðasti fundur Deltadeildar starfsárið 2022-2023 var haldinn miðvikudaginn 8. mars í húsnæði Skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12, Reykjavík. Þar tóku á móti okkur Soffía Vagnsdóttir félagi í Kappa deild, skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu og Guðrún Edda Bentsdóttir landssambands forseti.
Í upphafi fundar viðhafði Halldóra Jónsdóttir formaður nafnakall, sagði síðan fund settan og bað Sigurveigu Sigurðardóttur ritara að kveikja á kertunum. Fór hún síðan yfir erindi frá Landssambandinu m.a. um landsþingið í Hveragerði í maí, ráðstefnu í Finnlandi og styrki til ferða og ráðstefna. Halldóra skilaði einnig kveðju frá Gyðu Bergþórsdóttur félagskonu sem hún heimsótti daginn áður ásamt Elísabetu Jóhannesdóttur. Gyða dvelur nú á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi og verður 94 ára í næsta mánuði. Þær áttu með henni góða stund, færðu henni rósir og kveðjur frá Deltadeildinni og rifjuðu upp eitt og annað úr starfinu.
Á stjórnarfundi þann 1. mars sl. var ákveðið að breyta til á síðara starfsárinu, á þann veg að fela félagskonum undirbúning funda. Skipta þeim í hópa og taka upp skipulag eins og tíðkaðist hér áður að þær sem búa á sama svæði verði falinn undirbúningur funda í samvinnu við stjórnina.
Þá var komið að erindi Soffíu Vagnsdóttur sem nefndist “forvitni-sköpun-mennska”. Þar fjallaði hún um óttann við breytingar sem hefði svo áhrif á hvernig horft væri til framtíðar. Það væri mikilvægt að breyta hugarfari og í stað þess að líta á framtíðina með ótta og áhyggjum þá að líta á hana sem afl til breytinga og umgjörð um spennandi tækifæri. Einnig ræddi hún áherslubreytingar í menntun og kennslu og vitnaði í nýja skýrsla WEF þar sem tilfinningagreind, leiðtoga- og félagsfærni auk frumkvæðishæfni eru talin mikilvægustu áhersluþættir í menntun. Hún taldi að í ljósi þess þyrfti að skoða þá menntun sem veitt er í skólum landsins. Þar þyrfti einnig að huga enn frekar að fjölmenningu og að láta raddir barna heyrast.
Sigrún Jóhannesdóttir flutti síðan orð til umhugsunar. Nefndi hún þau: Breytingar-framfarir? Hún sagðist ekki vera jafn viss og Soffía um að allar breytingar væru framför. Hún fór síðan yfir þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa frá því hún fæddist og þar til dagsins í dag. Ekki síst eru breytingar á tungumálinu henni áhyggjuefni. Varpaði hún í lokin fram spurningunni “erum við síðasta kynslóðin sem talar þokkalega íslensku?”. Sannarlega orð til umhugsunar.
Fundarstörfum lauk í Borgartúninu um kl. 19:00. Þá var farið á tælenska veitingastaðinn Ban Tai, Laugavegi 30 við Hlemm og dýrindis matur snæddur. Happdrættið var á sínum stað og fékk Gunnhildur vinninginn. Góðum fundardegi og ánægjulegri samveru lauk um kl. 20:30.