Fyrsti fundur ársins 2014 - Leiðarstjarnan

Fyrsti fundur ársins var haldinn í salnum Háteigi í Grand Hótel í Reykjavik. Meginefni fundarins var námskeiðið "Leiðarstjarnan", sem okkar kona Sigrún Jóhannesdóttir, hélt fyrir deildina. Undirbúningur fundarins var í höndum stjórnar og Sigrúnar Jóhannesdóttur
   Leiðarstjarnan - leiðir til að efla innra starf

Leiðarstjörnuna byggir Sigrún á fimm arma stjörnu, sem hún kallar Leiðarstjörnuna, þar sem hver armur hefur sitt tákn og viðfangsefni: sjálfseflingu, næmi, framsýni, veruleika og djörfung.  Liðir 2-5 í stjörnunni byggir hún á leiðtogatígli Peter Koestenbaum (www.pib.net) og byrjuðum við á að máta okkur við líkan hans. Koestenbaum telur tvenns konar lausnir vera að viðfangsefnum sem hann skilgreinir sem; " bæði og"  og  "annað hvort eða" lausnir og samkvæmt því unnum við að spennukorti, sem er tæki fyrir okkur til að átta okkur á "bæði og" lausnum. Sigrún leitar víða fanga í námsefni sínu og nefndi til sögunnar hug(ar)lása og hinn frjálsa vilja manneskjunnar, sem velur þá hvort hún er fyrir ofan eða neðan "línuna" og nefndi ýmis dæmi um það. Að endingu var brugðið á leik.
 
 
Allt var þetta mjög fróðlegt og skemmtilegt og voru fundarkonur sammála um að næsta vetur þyrfti deildin að halda áfram með þessa vinnu, styrkja innviði og starf deildarinnar, einkum og sér í lagi þar sem allmargar konur áttu þess ekki kost að sækja fundinn og námskeiðið.
Tekið var nafnakall og kveðjur fluttar frá fjarstöddum félögum,  orð til umhugsunar um það hvernig megi efla umhverfisvitund ungs fólks og happdrættið var á sínum stað. Formaður kynni einnig fréttabréf forseta samtakanna og að endingu voru konur hvattar til að fjölmenna á metnaðarfullt vorþing 10. maí á Ísafirði.
Að lokinni dýrindis máltíð - súpu og matarmiklu kjúklingasalati héldu konur endurnærðar út í kvöldkyrrðina.
Næstu fundir:
Fundir til vors voru ákveðnir: miðvikudagurinn 26. febrúar á Akranesi, fimmtudagur 27. mars í Reykholti og aðalfundur og jafnframt síðasti fundur vetrarins mánudaginn 28. apríl í Borgarnesi.