Jólafundur í Deltadeild 04.12.2024
Annar fundur Deltadeildar - jólafundur - var haldinn í Tónlistarskólanum á Akranesi miðvikudaginn 4. desember 2024.
Theodóra formaður setti fund og Jónína Erna kveikti á kertum. Að loknu nafnakalli og kveðjum frá þeim konum sem ekki komust var farið yfir fundargerð síðasta fundar.
Við minntumst Gyðu okkar, Theodóra kveikti á kerti og las minningargreinina sem Sigrún skrifaði fyrir okkur í Morgunblaðið.
Jensína var með „Orð til umhugsunar“. Hún las fyrir okkur fallega Múmínjólasögu með góðum boðskap og flutti ljóð eftir móður sína.
Undir liðnum önnur mál ræddi Theodóra bréf sem borist hafa frá uppstillinganefnd og laganefnd og hafa verið send til okkar.
Hún fór einnig yfir hugmyndir að dagskrá vorannar. Á bókafundi í Reykjavík eftir áramót munum við ræða bækurnar Ferðalok eftir Arnald Indriðason og Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og sækja leiksýningu um Marlene Dietrich sem Sigríður Ásta Olgeirsdóttir verður með í Sjálfstæðissal Parliament Hótels við Austurvöll. Við munum eiga sameiginlegan fund með Uglum – Zontaklúbbi Borgarfjarðar á Akranesi þar sem áætlað er að bjóða til dansstundar og safna fyrir Menntasjóð Mæðrastyrksnefndar. Epsilonkonur heimsækja okkur svo í lok apríl.
Ásta fór aðeins yfir félagatalið og uppfærslu á því, Elísabet kynnti gesti sem við buðum á fundinn, þær Sigríði Skúladóttur og Sigrúnu Þorbersdóttur og í lokin færði Theodóra Soffíu okkar rauða rós en hún varð áttræð í október.
Síðast á dagskrá var erindi sem Sigríður Ásta Olgeirsdóttir gestur okkar flutti. Sagði hún okkur frá því að söngur og leiksvið hefðu alla tíð verið partur af lífi hennar, en hún byrjaði sitt tónlistarnám 4 ára gömul í Borgarnesi. Síðar lá leið hennar suður til Reykjavíkur og út í heim. Sigríður Ásta hefur samið ýmis leikstykki og komið fram í leik og söng víða. Næst á dagkrá hjá henni er leiksýning um Merlene Dietrich sem sýnd verður í febrúar. Söng hún svo nokkur jólalög fyrir okkur og Jónína Erna lék með á flygilinn. Að lokum sungum við allar saman nokkur jólalög við undirleik Jónínu Ernu, Theodóra útbjó lítið jólasönghefti sem við getum átt til næstu ára.
Kvölverður var á Galito og happdrættið á sínum stað. Þórunn fékk vinninginn að þessu sinni.
Héldum svo heim uppúr kl 20:30 alsælar með daginn okkar.
Fréttin byggð á fundargerð fundarins.
ÁE