Vorfundur Delta 2019
Við áttum dásamlegan tæpan sólarhring saman í faðmi sveitarinnar í Nesi í Reykholtsdal 29.-30. maí s.l. og með samstillingu og gleði náðist að fylla hverja stund með því, sem við viljum rækta með okkur, vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Áður en kvöldmáltíðin hófst las Guðlaugur ljósmyndari Óskarsson úr nýrri ljóð-myndabók, sem hann var að gefa út - og sýndi myndir með.
Lystilegur kvöldmatur var borinn fram af Þórunni og Dagnýju, kjúklingasalat með alls konar, kaffi og konfekt á eftir. Sérstök sveit í uppvaskinu sá til þess að allt varð fínt á eftir.
Ruth Jörgensdóttir var tekin inn í deildina og inntökuathöfnin var mjög hátíðleg. Velkomin Ruth!
Soffía sagði svo ljómandi skemmtilega frá móður sinni og verkum ýmsum. Við vorum agndofa að heyra af þessari merkiskonu, Sigríði Kjaran, sem aldrei virtist falla verk úr hendi og sló greinilega ekki mörg vindhögg. Við höfðum ráðgert að hver og ein okkar segði frá móður okkar og sýndum einhvern hlut, sem minnti okkur á hana. Við ákváðum að geyma þetta til næsta vetrar.
Fyrir svefninn var svo dansstund með Gullu. Ja, þvílík tilþrif að vanda!
Kúrðum okkur svo í ljómandi herbergjum og aðstöðu til morguns. Gengum ekki til laugar, það var svo kuldalegt og dagurinn orðinn langur.
Um morguninn þáðum við morgunverð af Bjarna í Nesi, ferðaþjónustubóndanum. Hann hafði heyrt orð Soffíu um móður sína kvöldinu áður og langaði til að deila með okkur fallegum minningum um móður sína og ömmu. Fallegt hjá honum.
Eftir morgunmat var hreyfistund úti á palli með Gullu. Engin var svikin af henni og við vorum allar ákveðnar í að æfa og æfa sporin í allt sumar, setja kennslu í þeim á síðuna okkar og hvaðeina!
Þá sagði Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir frá jákvæðri sálfræði og hvernig hún hefði nýst sér í leik og starfi. Frábær hugvekja í morgunsárið.
Dagný ritari las fundargerðir frá í des, jan. og mars - og það reyndist skemmtileg upprifjun á vetrinum. Samþykktar.
Jóna Benediktsdóttir forseti lagði leið sína til okkar alla leið frá Ísafirði og ávarpaði hópinn mjög skemmtilega og hvetjandi. Ávarpið leiddi inní umræðu um alþjóðaráðstefnu samtakanna, sem haldin verður á Hótel Natura 25. - 27. júlí. Allar voru hvattar til að skrá sig og farið var yfir skráninguna með hjálp tölvu og skjávarpa.
Að lokum var þakkarstund þar sem afhentar voru rósir, Jónu forseta fyrir komuna og ómetanlegan styrk með henni, Soffíu fyrir innleggið um móður sína, Þórunni og Dagnýju fyrir matseldina, Sjöfn fyrir að velja lög eftir inntökuna, Theodóru í tilefni af sæti í stjórn landssambandsins og mætingardrottningarnar, Soffía, Ásta og Þrúður.
Að lokum var borin fram humarsúpa og kaffisopi - það gerði Þórunn og henni til aðstoðar áfram Dagný og ferskar konur voru settar í uppvaskið.
Kveðjustundin rann upp um kl. 13:30 og við hurfum á braut, staðráðnar í að æfa danssporin og fleira gott.
Vona að ég gleymi engu/engri...
Með innilegu þakklæti og kveðjum, við hlökkum til sumarráðstefnunnar og haustsins,
fyrir hönd Deltastjórnarinnar,
Jónína og Þórunn.