27.10.2016
Næsti fundur Kappa - deildarinnar verður haldinn hjá Námsflokkum Reykjavíkur að Suðurlandsbraut 32, 108 Reykjavík, mánudaginn 31. okt. nk. og hefst kl. 18:00 (gengið inn austan megin).
Dagskráin verður sem hér segir:
Nafnakall
Fundargerð síðasta fundar
Orð til umhugsunar
Kynning á starfi Námsflokka Reykjavíkur, námstilboðum og stuðningi - Iðunn Antonsdóttir, forstöðumaður og félagi í Lambda deild
Boðið verður upp á léttan kvöldverð, kaffi og konfekt og er verð fyrir það kr. 3.000.- (ekki posi á staðnum).
Lesa meira
21.09.2016
Fyrsti fundur Kappa-deildar verður haldinn miðvikudaginn 28. september kl. 18:30 hjá Huldu Önnu að Beykihlíð 4, 103 Reykjavík. Fyrir utan hefðbundna dagskrá flytur Ingibjörg S. Guðmundsdóttir varaformaður orð til umhugsunar og Gunnlaug Hartmannsdóttir horfir til framtíðar.
Lesa meira
20.05.2016
Síðasti fundur Kappa-deildar var haldinn á heimili verðandi formanns, Guðrúnar Eddu Bentsdóttur. Við mættum klukkan 18:00 fyrir utan heimili hennar og fórum í góða gönguferð. Þetta var óvissuferð og allt í einu vorum við komnar heim til Ingibjargar Guðmundsdóttur í Fossvoginum þar sem fram voru dregnar gullnar veigar. Þær voru teigaðar og hlátraskölllin glumdu um nágrennið. Um klukkan 19:00 vorum við komnar til baka á heimili Guðrúnar og þá byrjaði formlegur fundur. Byrjað var á aðal númeri kvöldsins. Það var frásögn Gunnhildar Óskarsdóttur sem stofnaði félagið Göngum saman en helsti tilgangur félagsins er að safna fé til rannsókna sem auka skilning á uppruna og eðli krabbameins í brjóstum. Gunnhildur sagði frá sjálfri sér og félaginu. Gunnhildur er ein af þessum hvunndagshetjum sem framkvæma hlutina og marka spor.
Eftir frásögn Gunnhildar var snædd dásamleg sjávaréttasúpa matreidd af húsfreyjunni og þar á eftir fór Gunnlaug Hartmannsdóttir fráfarandi formaður með orð til umhugsunar. Að lokum voru aðalfundarstörf þar sem meðal annars var kosin ný stjórn. Guðrún Edda Bentsdóttir var kosin formaður og auk hennar voru kosnar í stjórn þær Anna Hugadóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Júlíana Hilmisdóttir,
Konur fóru saddar og sælar heim eftir skemmtilega kvöldstund og bíða spenntar eftir að hittast á ný í haust.
Lesa meira
31.03.2016
Boðað er til fundar Kappadeildar miðvikudaginn 6. apríl klukkan 18.00 20.00 í Álafosskaffi í Mosfellsbæ (Café Álafoss Bistro Gallery)
Dagskrá fundarins verður með hefðbundnu sniði. Ragnheiður Axelsdóttir verður með orð til umhugsunar og aðal ræðumaður kvöldsins er Sigrún Þ. Geirsdóttir sjósundkona sem synti yfir Ermasundið í sumar.
Kvöldverður verður snæddur og í boði verður ofnbökuð fiskitvenna (lax og hvítur fiskur, fer eftir árstíð hvaða hvítur fiskur er valinn) með grænmeti í kókosrjómasósu borið fram með hrísgrjónum og fersku salati og brauði kr. 3.200 á mann.
Mætum allar í hina dásamlegu Álafosskvos í Mosfellsbæ og eigum góða stund saman.
Lesa meira
09.03.2016
Dagskrá vorþingsins 30. apríl hefur litið dagsins ljós.
Lesa meira
19.02.2016
Þá er komið að öðrum fundi vetrarins. Við ætlum að eiga notalega og gefandi stund með Delta-konum á Vesturlandi sem við heimsóttum í fyrra. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 24. febrúar á veitingastaðnum Satt á Hótel Natura, Nauthólsvegi 52 og hefst klukkan 18:00.
Lesa meira
20.01.2016
Bókafundur Kappadeildar var haldinn á heimili Önnu Guðrúnar Hugadóttur í Garðabænum. Sumar konur áttu erfitt með að rata og sagan segir að einhverjar hafi verið komnar yfir í Kópavog í leit að réttu húsi. Á fundinum voru teknar fyrir fjórar bækur. Ingibjörg Kristleifsdóttir fjallaði um bækurnar Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur og Eitthvað á stærð við alheiminn eftir Jón Kalman. Marsíbil Ólafsdóttir tók því næst við og fjallaði um bókina Kona með höfuð eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur. Að lokum kynnti Ingibjörg Guðmundsdóttir fyrir okkur Breiðfirðingabók og las upp bráðfyndna frásögn eftir lærimeistara Jóns Kalmans úr Dölunum. Veitingar voru að venju góðar þó svo að ein úr veitingahópnum hefði gleymt að mæta á fundinn með kræsingarnar sínar. Nóg var til handa öllum og konur fóru glaðar og saddar heim. Búið er að setja inn myndir frá fundinum.
Lesa meira
08.12.2015
Samskipta- og útgáfunefnd hefur unnið hörðum höndum undanfarið að því að setja saman haustfréttabréfið 2015. Þeirri vinnu er nú lokið og glæsilegan afraksturinn má sjá undir krækjunni Fréttabréf haust 2015 á slóðinni http://dkg.muna.is/is/moya/page/frettabref_dkg
Lesa meira
19.11.2015
Jólafundurinn verður haldinn fimmtudaginn 26. nóvember kl. 18:30 á heimili Sigrúnar Kristínar að Reynihvammi 25 í Kópavogi. Að vanda ætlum við að skiptast á jólapökkum. Líkt og undanfarin jól ætlum við að gæta hófs og hafa innihaldið ekki yfir kr. 1500 - 2000. Auk venjubundinnar dagskrár verður sungið og glaðst saman á margvíslegan hátt.
Lesa meira
02.11.2015
Fyrsti fundur Kappadeildar starfsárið 2015 - 2016 var haldinn heima hjá Ingibjörgu Guðmundsdóttur þann 22. október. Gunnlaug Hartmannsdóttir formaður kynnti starfsáætlun vetrarins. Þema vetrarins er ,,Verum virkar - styrkjum starfið". Á fundinum unnu Kappakonur verkefni þar sem spjall og gleði var í fyrirrúmi. Fundirnir í vetur verða með breyttu sniði, þ.e.a.s skipulag fundanna. Nokkrir félagar bera ábyrgð á hverjum fundi, skipuleggja hann og ákveða viðfangsefni. Þar með verða allir félagar virkjaðir, samkvæmt þema starfsársins.
Næsti fundur, jólafundurinn, verður haldinn 26. nóvember. Nánar um þann fund síðar.
Lesa meira