Bleikur október og dekurdagar
Á fundi Betadeildar 28. október sl. komu tvær góðar konur í heimsókn sem sögðu frá sjálfsprottnu verkefni sem þær hafa staðið fyrir í 12 ár á Akureyri. Þær heita Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir. Verkefnið er af tilefni bleiks október og nefnist „Dekurdagar á Akureyri“ en formlega standa þeir yfir fyrstu helgina í október en verkefnið sem slíkt stendur allan mánuðinn.
Þeirra framlag er að leita til fyrirtækja í bænum um framlög til verkefnisins svo og að selja bleikar stórar borðaslaufur sem þær koma með til viðkomandi og hengja upp í staura fyrir framan viðkomandi hús eða þar sem óskað er. Ágóðinn af sölunni rennur allur til Krabbameinsfélags Akureyrar. Fyrsta árið söfnuðust 300.000 kr. en árið 2020 söfnuðust 4,2 milljónir en endanleg tala fyrir 2021 er ekki komin. Þær hafa einnig látið útbúa töskur og sjöl sem seld eru til fjármögnunar þessa verkefnis. Þessi fjáröflunarliður skiptir sköpum fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar.
Svona er nú hægt að láta gott af sér leiða með góðum hugmyndum.