Listakonan í fjörunni - verkefni Betadeildar

Félagskonur í Betadeild réðust í það verkefni að gefa út bók um verk Listakonunnar í Fjörunni, Elísabetar Geirmundsdóttur. Bókin kom út árið 1989. Þáverandi formaður Betadeildar var Edda Eiríksdóttir sem jafnframt var fyrsti formaður deildarinnar. Félagskonur í Betadeild unnu að gerð og sölu bókarinnar og nutu dyggrar aðstoðar fleiri aðila ekki síst afkomanda listakonunnar. Deildin gaf jafnframt út póstkort með myndum af verkum Elísabetar til að fjármagna útgáfuna. Auk þess styrktu ýmsir aðilar verkefnið.

Í aðfaraorðum bókarinnar kemur fram að Elísabet Geirmundsdóttir hafi verið hljóðlát og hæglát kona sem féll frá langt fyrir aldur fram. Kona sem var einangruð í listiðju sinni, nánast einfari, önnum kafin húsmóðir á stóru heimili. Hún vakti verðskuldaða athygli meðal samtíðarmanna sinna og verkin sem eftir hana liggja bera vitni um óvenjulegt listfengi og fjölþætta hæfileika. „Hún virtist geta unnið úr sérhverju því efni sem henni barst í hendur; snjó, birkirenglu, efnisbúti, orði“ eins og segir í upphafskafla bókarinnar um listakonuna.

Í bókinni eru myndir af fjölmörgum verkum Elísabetar auk ljóða og laga sem hún samdi og sýnir þessi yfirlitsbók vel fjölhæfni listakonunnar. 

Þetta er stærsta verkefni sem Betadeild hefur ráðist í hingað til.

Hér fer á eftir forsíðumynd bókarinnar ásamt sýnishorni af póstkortunum og ljóðum eftir listakonuna sem eru aftan á póstkortunum:

„Listakonan í fjörunni“, bók um listakonuna Elísabetu Guðmundsdóttur

 

Vordögg

Vordögg

Við ætlum að fara að finna 
fallegan lítinn álf. 
Hann býr meðal blómanna smáu 
og bros hans er dýrðin sjálf. 
Nú elskum við allt sem lifir 
og okkar er veröldin hálf.

Gleði í litum
Gleði í litum. Verk Elísabetar Geirmundsdóttur

Lítið ástarljóð

Ég ætla að biðja vindinn að kveða
þýtt við gluggann þinn.
Ég ætla að biðja frostið að vefa
rósavoð á rúðuna þína
svo kuldinn komist ekki inn.
Ég ætla að biðja mánann að strjúka
mildum geisla
mjúkt um þína kinn.
Ég ætla að biðja svefninn
að vefja um þig vökudrauminn minn.
E.G.1949

 

 

Síðast uppfært 12. mar 2020