45 ára afmæli Betadeildar
Árið 2002 ákváðu félagskonur í Betadeild að halda upp á afmæli deildarinnar á 5 ára fresti og föstudaginn 26. maí 2023 á lokafundi deildarinnar var haldið upp á 45 ára afmælið. Deildin hafði átt afmæli árið á undan (2. júní 2022) en ákveðið var að bíða með afmælishald þar til nú. Afmælisnefnd hafði verið skipuð og í henni sátu: Elín Margrét Magnúsdóttir, Eygló Björnsdóttir, Fríða Pétursdóttir og Þorgerður Sigurðardóttir.
Á afmælisári er venjan að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum. Sú kona má ekki vera félagi í DKG en þarf að starfa á svæði Betadeildar. Að þessu sinni varð Helga Hauksdóttir fyrrverandi skólastjóri Oddeyrarskóla og kennsluráðgjafi fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum í mennta- og fræðslustörfum og unnið afar óeigingjarnt starf sem kennari, skólastjóri og kennsluráðgjafi erlendra nemenda.
Þorgerður Sigurðardóttir ávarpaði Helgu fyrir hönd Betakvenna. Hún fór yfir menntun og starfsferil Helgu og hennar óeigingjarna starf í þágu menntamála varðandi tvítyngd börn og fjölskyldur þeirra. Að ávarpinu loknu afhenti Aðalbjörg formaður Betadeildar Helgu heiðursskjal, blóm og gjöf frá Betadeild. Hér má lesa ávarp Þorgerðar.
Helga þakkaði fyrir sig og sagði að þessi viðurkenning hafi komið sér á óvart en að hún sé bæði glöð og þakklát fyrir þennan virðingarvott. Hún sagði okkur lítillega frá árum sínum í Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og frá árum sínum í Oddeyrarskóla þar sem hún vann að mörgum þróunarverkefnum. Hún sagði okkur einnig frá erlendu nemendunum sem hún hefur í mörgum tilfellum myndað mikla vináttu við. Að lokum las Helga upp úr bók sem hún hefur miklar mætur á og heitir „Selur kemur í heimsókn“. Einnig fór hún með ljóðið : „Að hugsa um börn eins og snjókorn“:
Að hugsa um börn eins og snjókorn
Lítið snjókorn fellur á jörðina.
Annað snjókorn fellur við hlið þess.
Enn eitt fellur og mörg fylgja á eftir.
Sérhvert er frábrugðið, hefur sína eigin lögun og stærð,
en hvílík fegurð í hverju og einu!
Þau fela í sér svo mikla dulúð.
Við verðum að gæta þess að hvert og eitt nái að glitra.
Eitt er ekki fallegra en annað.
Þau eru öll einstök, sérstök og stórfengleg.
Cynthia R. Sanchez
Að þessari athöfn lokinni var boðið upp á tónlistaratriði. Sesselja Ólafsdóttir tónlistarkona, vandræðaskáld, ritlistarkennari, athafnastjóri og nýjasti bæjarlistamaður Akureyrarbæjar flutti okkur þrjú lög við undirleik á gítar og tóku Betasystur undir sönginn.
Að lokum var boðið upp á kvöldverð; grillað lambalæri og meðlæti og kaffi og konfekt. Nutu konur samverunnar við notalegar samræður yfir kræsingunum.
Síðast uppfært 05. sep 2024