35 ára afmæli Betadeildar
Laugardaginn 2. júní 2012 hélt Betadeild upp á 35 ára afmæli sitt. Á þeim tímamótum er tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum og hefur deildin gert það á fimm ára fresti. Að þessu sinni varð Rósa Guðrún Eggertsdóttir sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum til menntamála.
Rósa hefur haldið ótal námskeið, um flestar hliðar læsis, víðs vegar um landið og unnið með fjölda kennara að margskonar þróunarverkefnum sem öll miða að bættum árangri nemenda. Auk þess hefur hún haft umsjón með framhaldsnámi í lestrarfræðum við kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Til hennar leita gjarnan kennarar og annað skólafólk eftir góðum ráðum og leiðsögn varðandi hvaðeina er viðkemur læsi.
Rósa er höfundur að nýrri nálgun í lestrarkennslu sem hún nefnir Byrjendalæsi. Aðferðina hefur hún þróað í samstarfi við starfandi kennara í grunnskólum og samstarfsfólk sitt á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Markmiðið er að kennarar öðlist aukna fræðilega þekkingu á læsi og færni í lestrarkennslu. Aðferðinni hefur verið mjög vel tekið og mat á árangri nemenda sýnir jákvæðar niðurstöður. Í vetur vinna um 30 skólar víðs vegar á landinu eftir aðferðinni. Næsta vetur munu að líkindumum það bil 20 nýir skólar bætast í hóp þeirra skóla sem vilja tileinka sér þessi vinnubrögð í kennslu læsis. Rósa hefur gefið út námsefni fyrir grunnskólanemendur og fræðirit fyrir kennara og annað skólafólk.
Afmælið var haldið að Hrafnagili, aðstöðu eldri borgara þar. Félagskonur skiptu með sér að koma með veitingar. Boðið var upp á kakó og kaffi ásamt flatbrauði með hangkjöti og laxi, kleinur og rjómapönnukökur. Þá söng Silja Garðarsdóttir nokkur lög við undirleik föður síns Garðars Más Birgissonar, en þess má geta að Silja er dóttir Bjarkar Sigurðardóttur einnar af Betasystrum.
Auk þess að Betasystur fjölmenntu á afmælisfagnaðinn glöddust einnig með okkur félagar í Mý deild, landssambandsforseti, Sigríður Ragna Sigurðardóttir, sem heiðraði okkur með nærveru sinni og einn félagi úr Kappadeild sem stödd var hér á svæðinu.
Við í Betadeild þökkum þeim öllum kærlega fyrir samveruna þennan dag. Myndir sem teknar voru í afmælinu má nálgast ímyndamöppunni.
Síðast uppfært 15. apr 2017