40 ára afmæli DKG
Það er óhætt að segja að samtökin okkar hafi haldið upp á fertugsafmælið 7. nóvember 2015 með stæl. Frábært málþing um ungu nútímakonuna, móttaka hjá menntamálaráðherra og veisla um kvöldið. Fullt af afmæliskveðjum víða að og skemmtilegir happdrættisvinningar.
Sigrún Klara Hannesdóttir setti málþingið, bar okkur kveðjur frá alþjóðasamtökunum og rifjaði upp tilurð samtakanna á Íslandi. Hópur kennara á öllum skólastigum stofnaði Alfadeildina og hafði að leiðarljósi að gera það sem þeim kæmi vel út frá þörfum og áhuga. Sigrúnu Klöru er tamt að hugsa út í heim og það er ekki tilviljun að hún var fyrsta konan í Evrópu til að hljóta æðstu viðurkenningu samtakanna okkar. Hún hvatti okkur til að hugleiða hvort staðan væri ef til vill orðin það góð varðandi konur í leiðtoga- og stjórnunarstörfum að tímabært væri að horfa meira út á við, til þess hvernig við getum gert gagn í heiminum. Öll þrjú framsöguerindin sem á eftir komu voru sérstaklega áhugaverð og Kristín Jónsdóttir stýrði samkomunni með glæsibrag.
Auður Magndís Auðardóttir, félags- og kynjafræðingur og framkvæmdastjóri Samtakanna 78, fór með okkur út fyrir boxin sín. Hún sagði okkur frá breytingum sem hún hefði gert á lífi sínu til að vera trú skoðunum sínum gagnvart hlýnun jarðar og femínískum málefnum. Hún hefði selt bílinn og ákveðið að tala aldrei illa um líkama sinn, hvorki við aðra manneskju né með sjálfri sér eins og konur gerðu mjög mikið. Einnig hefði hún lagt sitt af mörkum til að minnka matarsóun í heiminum.
Kristín Vala Matthíasdóttir, efnaverkfræðingur, framkvæmda¬stjóri Auðlindagarðs HS Orku og formaður Jarðhitafélags Íslands, sagði okkur frá því hvernig hún ynni að því að skapa jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Mikilvægasta verkefni hennar væri að vera móðir þriggja sona sinna og við ráðningu hefði hún sett skilyrði sem meðal annars gerðu henni kleift að sækja á leikskóla til jafns við föður þeirra þótt hún byggi í Kópavogi og ynni á Suðurnesjum. Hún lagði áherslu á að konur væru eftirsóttar í tæknigeiranum og þar þætti mjög smart að hafa ólétta konu í vinnu.
Halla Kristín Einarsdóttir, kvikmyndaleikstjóri og aðjúnkt í hagnýtri menningarmiðlun, hafði ekki sömu sögu að segja og Kristín Vala. Mikla fjármuni þyrfti til að gera kvikmyndir og
karlar ættu kost á að gera kvikmyndir í fullri lengd en konur þyrftu að láta sér nægja stuttmyndir og annað slíkt efni. En kvikmyndir hefðu mikil áhrif á lífsgildi og hugmyndafræði og því væri mikilvægt að þar birtust bæði sjónarhorn karla og kvenna.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tók á móti okkur í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu með góðum veitingum og það er ekki amalegt að eiga hamingjustund í þessu fallega húsi. Skólakór Kársnesskóla, undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur, gladdi okkur með fallegum söng. Eygló Björnsdóttir, forseti DKG, veitti Þuríði Kristjánsdóttur, Jennu Jensdóttur, Þorbjörgu Kristinsdóttur, Margréti Schram og Sigrúnu Klöru Hannesdóttur viðurkenningu, en þær voru allar stofnfélagar í Alfadeildinni og eru enn starfandi í félaginu.
Þessum hátíðisdegi lauk eins og vera ber með dýrindis veislu undir stjórn Fannýjar Gunnarsdóttur. Salurinn flóði í rauðum rósum, maturinn var góður og félagsskapur góðra DKG-systra aldeilis frábær að vanda. Hallveig Rúnarsdóttir söng fyrir okkur við undirleik Hrannar Þráinsdóttur eftirminnilega blöndu af skemmtilegum lögum Tryggva M. Baldvinssonar við texta Þórarins Eldjárns og Óðnum til mánans úr Rúsölku eftir Dvorak. Gamlar og nýjar ljósmyndir úr starfi DKG fengu líf og rifjuðu greinilega upp ljúfar endurminningar. Þórunn Björnsdóttir stýrði líflegum fjöldasöng og Sigríður Ragna Sigurðardóttir happdrætti með góðum vinningum.
Valgerður Magnúsdóttir, Kappadeild
(sýnt á kvöldverðinum - hægt að hlaða niður með því að smella á linkinn)
Fjölmiðlaumfjöllun:
Í Fréttablaðinu
Í Fréttablaðinu
Fyrirlestrar og glærur:
Á þessari síðu má finna glærur og upptökur frá málþinginu
Síðast uppfært 06. nóv 2017