Landsambandsþing 2017

Landssambandsþing haldið í Menntaskólanum á Akureyri 6.–7. maí 2017.
Þema þingsins: Forysta og faglegt lærdómssamfélag

Þingið hófst með því að Eygló Björnsdóttir, forseti landssambandsins, bauð konur velkomnar og sérstaklega fulltrúa alþjóðasambandsins og fyrrverandi forseta þess, Beverly Helms. Elínborg Sigurðardóttir kveikti á kertum vináttu, hjálpsemi og trúmennsku og fundarstjóri dagsins var tilnefndur, Sigríður Herdís Pálsdóttir Zetadeild. Flutt var tónlistaratriði þar sem þrjár ungar stúlkur komu fram. Fyrst lék ein þeirra á píanó og þá sungu hinar tvær og léku á gítar.

Beverly Helms flutti fyrsta erindið sem hún nefndi: Does DKG Leadership promote Learning Communities
Hún velti upp þeirri spurningu hvort DKG væri lærdómssamfélag í sjálfu sér og styddi við samfélög félaga sinna. Að lokum hvatti Beverly íslenskar konur til að halda þeirri frjóu hugsun, sem einkenndi samtökin hér og hefðu losað um ýmsar þrengingar, sem einkenndu samtökin vestanhafs.

Hluti þinggestaNæsta erindi flutti Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir, lektor við HA og nefndi hún það: Þróun faglegrar forystu og lærdómssamfélags – hér og þar. Hlutdeild og hríslun.
Hún greindi frá verkefni við að innleiða starfshætti lærdómssamfélags í skólum Akureyrar og nokkurra skóla Eyjafjarðar í samstarfi við miðstöð skólaþróunar HA. Þá greindi Birna frá 5 ára samstarfsverkefni við Gautaborgarháskóla (2012-2017). Megintilgangur þess var að bæta námsárangur, efla forystu til að auka færni skóla og sveitarfélaga til að bæta skólastarf og þekkja, meta og skilja innviði skóla.

Að erindi Birnu loknu sá Margrét Jónsdóttir í Gammadeild um létta hreyfingu fyrir þingkonur eins  og henni er einni lagið og mæltist það vel fyrir.

Síðasta erindið fyrir hádegishlé var svo erindi Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur aðstoðarskólastjóra við Menntaskólann á Tröllaskaga sem bar nafnið: Hugsjónir, fjölbreytni og árangur í skólastarfi.
Jóna Vilhelmína  rakti skólastarfið á Tröllaskaga frá því að það hófst fyrir 7 árum eftir að framhaldsmenntun hafði verið lögð af á svæðinu. Snemma varð ljóst að skólinn yrði að marka sér sérstöðu og leiðarstefið hljóðaði uppá, frumkvæði , sköpun og áræði sem hefur verið rauði þráðurinn í skólastarfinu í heild. Hjá SFR hefur skólinn tvívegis verið valinn stofnun ársins í sínum flokki. 

Hádegisverður var snæddur á Icelandair hótelinu, súpa og dýrindis fiskmáltíð.

Að loknu hádegishléi hófst dagskráin á því að þrjár ungar stúlkur fluttu fyrir okkur ljóð.

Þrjár ungar stúlkur fluttu okkur ljóð.Að ljóðalestri loknum tók við fjórða erindi dagsins þar sem þær Margrét Þóra Einarsdóttir og Helena Sigurðardóttir kennarar í Brekkuskóla á Akureyri, sögðu frá Eymennt, menntabúðum um upplýsingatækni í skólastarfi.  
Eymennt hefur reynst góður og þarfur kostur í starfinu. Þar hefur myndast sannkallað lærdómssamfélag með jafningjafræðslu, góðri samveru og tengslaneti kennara af öllum skólastigum. Þetta hefði hvetjandi áhrif á kennara, sem kenndu nemendum sínum til framtíðar, ekki fortíðar. Fyrir nemendur þýddi þetta aukna fjölbreytni og tækifæri til náms.

Síðasta erindi dagsins flutti svo Björg Sigurvinsdóttir, leikskólastjóri á Akureyri og nefndi það: Að taka þátt í lærdómssamfélagi skólastjórnenda.
Björg rakti jákvæða reynslu sína af því starfi sem unnið væri með skólastjórnendum á Akureyri. Á Lundarseli þar sem Björg vinnur er símenntunaráætlun með námskeiðum,  skipulögðum fyrir alla starfsmenn skólans.  Allir stjórnendur bæjarins njóta mikillar og góðrar fræðslu. Reynt er að innleiða húmor í stjórnun þar sem hugað er að streitu og vellíðan í starfi. Björg sagðist afar þakklát öllu þessu góða starfi, sem hún efaðist ekki um að skilaði sér til skjólstæðinganna, barnanna.

Á sögugönguAð lokinni fræðilegri dagskrá var lagt af stað í sögugöngu frá Menntaskólanum í gegnum Lystigarðinn og um Innbæinn. Stoppað var við ýmis þekkt hús og m.a. tekið hús á Kristínu Aðalsteinsdóttur. Hún sagði hópnum frá bók sinni um íbúa Aðalstrætis, sem nú væri að koma út með myndum og viðtölum við íbúana. Næst var gengið að húsi listakonunnar í fjörunni, Elísabetar Geirmundsdóttur (1915-1959), og þar sagði sonur hennar okkur frá þessari merku listakonu. Í garðinum gaf að líta fallegar styttur eftir hana og víðar á Akureyri má finna listaverkin. Gangan endaði í Ketilhúsinu þar sem Akureyrarbær bauð til móttöku, sem Soffía Vagnsdóttir fræðslustjóri stýrði. Þar mátti sjá listaverk barna og fullorðinna, sem tengdust hafinu og fjörunni og á efri hæðinni gaf að líta listaverk, sem tengdust neyslusamfélaginu og hvernig hægt er að bregðast við því.  Mjög áhugavert allt saman og skemmtilega sett upp.

Um kvöldið var svo hátíðarsamkoma á Icelandair hótelinu. Ljúffengur matur, tónlist og skemmtiatriði deildanna. Mikið var hlegið, sungið og spjallað. Sigrún með viðurkenningunaTveimur konum var veitt viðurkenning fyrir störf sín fyrir DKG á Íslandi, þeim Áslaugu Brynjólfsdóttur í Alfadeild og Sigrúnu Jóhannesdóttur í Deltadeild. Landssambandsforseti fór nokkrum orðum um elju þessara merku kvenna og óeigingjarnt starf og Sigrún þakkaði fyrir þennan mikla heiður, sem sér þætti mjög vænt um. Um kl. 23 voru allar konur á leið heim í svefninn eftir ljómandi og ríkulegan dag.

Sunnudaginn 7. maí var svo haldinn aðalfundur landssambandsins frá kl. 9:30–13:30 með hefðbundnum aðalfundarstörfum.

Þingið var vel sótt, en um 80 konur voru skráðar til leiks.

Jónína Eiríksdóttir, Deltadeild.


 Nánar má lesa um þinghaldið í vorfréttabréfinu 2017 og í fundargerð aðalfundarins. Myndir frá þinginu eru í myndaalbúmi.

Dagskrá til útprentunar.


Síðast uppfært 05. mar 2024