Spokane 2010
Annað hvert ár, þegar ártalið er slétt tala, er haldið alþjóðaþing (International Convention) Delta Kappa Gamma samtakanna, venjulega einhvers staðar í Bandaríkjunum. Alþjóðaþing eru, eins og nafnið gefur til kynna, nokkurs konar aðalfundir og eru stærstu og glæsilegustu samkomur samtakanna með fjölda viðburða sem snúa bæði að félagslegum þáttum svo sem lagabreytingum og öðrum ákvörðunum en einnig að faglegum þáttum um menntamál að ógleymdum veislum og vinafagnaði.
Að þessu sinni var þingið haldið 20.-24. júlí í borginni Spokane í Washingtonfylki. Spokane er falleg borg með glæsilegri ráðstefnuhöll við bakka Spokane árinnar sem rennur í gegnum miðja borgina.
Þetta var í fimmta sinn sem undirrituð tók þátt í alþjóðaþingi og þó þau lúti að mestu sams konar skipulagi eru þau hvert með sínu sniði og mótast töluvert af gestgjöfum á hverjum stað. Að þessu sinni tóku um 1700 konur þátt í þinginu sem er heldur færra en venjulega en samt sem áður dágóður hópur. Ráðstefnuhöllin var afar glæsileg og rúmaði vel þennan fjölda. Dagskráin var fjölbreytt og gaf marga möguleika til að koma til móts við hin fjölbreytilegustu áhugamál. Veðrið var sérlega þægilegt, sól og 22°-28°hiti allan tímann. Allt þetta stuðlaði að afskaplega vel heppnuðu tímamótaþingi þar sem samþykktar voru mikilvægar breytingar á lögum samtakanna.
Dagskrá þingsins er lýst í glæsilegu dagskrárriti sem að þessu sinni var hvorki meira né minna en 104 blaðsíður. Það segir mikið til um umfang þingsins. Það er mjög fróðlegt að fletta í gegnum ritið því það gefur góða heildarsýn á eðli og starfsemi samtakanna.
Aðalsamkomurnar (General sessions)
Meginþungi þingsins fólst í aðalsamkomum sem voru um 2 klst. hver og voru fimm talsins. Þar voru kynntar skýrslur nefnda, ræddar og samþykktar lagbreytingarnar sem lagðar voru fram og auðvitað fjallað um tilgang og starfssemi samtakanna. Aðalsamkomurnar hófust flestar eða enduðu með mjög áhugaverðum lykilerindum(keynote) sem tengdust þema þingsins en margt annað fór fram á aðalsamkomunum sem áhugavert var að kynnast en er ekki tínt til hér.
Aðalþema þingsins var „From vision to action: advancing the society.“
Lykilerindin sem öll tengdust þemanu voru fjögur:
- „ Leadership in Global Society“ flutt af John Brock aðalforstjóra Coca Cola Enterprises, en mamma hans var DKG-félagi og einnig móðursystir hans sem var þarna stödd. Hann fjallaði um breyttar hugmyndir um mannauðsstjórnun og tengsl við viðskiptavini í hnattvæddum heimi. Enn og aftur vorum við minnt á að heimurinn hefur tekið stökkbreytingum síðustu ár og þar með hugmyndir manna um hlutverk og ábyrgð stjórnenda.
- „Spirited Leadership“ flutt af Amanda Gore sem er þekktur fyrirlesari í Bandaríkjunum um stjórnun. Hún fjallaði um leiðtogann sem lætur hjartað ráða för, hlátur og gleði og mikilvægi þess í allri stjórnun að laða fram það besta hjá fólki með jákvæðu viðhorfi. Hún var um leið skemmtilegur uppistandari og skildi við okkur skellihlæjandi og mjög jákvæðar, búnar að finna G-blettinn í heila okkar!
- „Culture Waves“ flutt af Anne Marie Rhodes, sem er rithöfundur og samskiptagúrú af ungu kynslóðinni og fjallaði um vinnustíl og viðhorf ungs fólks sem nýtir tækni með nýjum og skapandi hætti. Enn og aftur vorum við minnt á að viðhorf til náms og aðferðir við nám eru að gjörbreytast hjá nýrri kynslóð og við verðum að mæta því á skapandi hátt ef við ætlum að halda áfram í fræðslustörfum!
- „How to Influence Education Policy“ flutt af Christopher Rants, sem er fylkisþingmaður frá Iowa fylki og sonur Dr. Carolyn Rants fráfarandi formanns DKG. Hann fjallaði um leiðir til að koma málefnum á framfæri við þingmenn og þá sem setja lög sem við þurfum svo að starfa eftir. Gagnlegt fyrir alla og vakti til umhugsunar að gömlu persónulegu samskiptaaðferðirnar eru stundum vænlegri til árangurs en tæknin ef við þurfum að ná eyrum þeirra sem fá þúsundir tölvupósta á dag!!
Fræðslufundir (Workshops)
Annað megineinkenni þessara þinga felst í miklum fjölda fræðslufunda þar sem hægt er að velja á milli fjölmargra funda sem fjalla ýmist um starfsemi og stjórnun DKG og faglegra funda um menntamál á ýmsum sviðum. Allir geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi og oftast er það svo að vandinn er að velja og hafna þar sem margt er í boði á sama tíma. Hægt er að kynna sér innihald fræðslufundanna með því að fara á heimasíðu DGK, dkg.org.
Landfræðileg svæðisskipting (Regions)
Samtökunum er skipt upp í 5 landfræðileg svæði sem vinna að ýmsum sameiginlegum málum undir stjórn svæðisstjóra. Aðalverkefni hvers svæðis er að halda svæðisráðstefnu annað hvert oddatöluár. Á alþjóðaþingi hittast fulltrúar hvers svæðis á sameiginlegum morgunverðarfundi og ræða sameiginleg mál og fá kynningu á næstu svæðisráðstefnu. Næsta ráðstefna Evrópu verður t.d. haldin í Baden Baden í Þýskalandi. Þýsku konurnar sem þarna voru staddar kynntu fyrir okkur umgjörð ráðstefnunnar og var greinilega mikill áhugi á að mæta þar næsta sumar. Nýr svæðistjóri tók við Evrópusvæðinu á þessu þingi, Kate York frá Bretlandi. Hún tók við af Birgit Svenson frá Svíðþjóð sem gegnt hefur embættinu sl. tvö ár og mun hún leiða undirbúning inn fyrir svæðisráðstefnuna í Þýskalandi.
Menningarsvæði (Forums)
Í DKG eru starfandi nefndir , svokölluð Forum sem sinna þeim fjórum mismunandi menningarsvæðum sem samtökunum er skipt í. Forum-nefndirnar sjá um sérstaka fundi á alþjóðaráðstefnum samtakanna um málefni menningarsvæðanna. Þannig hefur Evrópunefndin sérstakan fund um evrópsk málefni og sama gildir um Suður-Ameríku , Bandaríkin og Kanada. Evrópufundurinn var að þessu sinni mjög fjölbreyttur og tók bæði á hagnýtum málum sem snúa að evrópskum svæðisþingum og ýmsum öðrum sameiginlegum málum en einnig var hluti fundarins helgaður faglegum málefnum undir þemanu: „Leading women educators – Impacting education worldwide“. Ria Bleeker frá Hollandi, sem stýrir rúmlega þrjátu þúsund manna verknámsskóla, flutti einstaklega fróðlegt erindi sem hún nefndi: „Diversity in Culture and Religion in Amsterdam Schools – connected with quality in education.“ Á eftir urðu skemmtilegar umræður um gæði í menntun sem Diana Bell frá Bretlandi stýrði.
Ferðir og skemmtanir
Ómissandi hluti af alþjóðaþingi er svo að sýna sig og sjá aðra, kynnast landi og þjóðmenningu gestgjafanna hverju sinni, rifja upp gamlan kunningsskap og njóta þess að vera í skemmtilegum félagsskap. Ótal margt af slíku tagi var að finna bæði á undan og eftir hinni formlegu dagskrá en jafnframt inni í dagskránni sjálfri. Þar má nefna sérstakt 4 daga námskeið – Seminar in Purposeful Living – sem haldið er dagana á undan ráðstefnunni í nálægri borg, að þessu sinni í Tacoma. Þetta námskeið sóttu að þessu sinni tvær konur frá Íslandi. Einnig voru ýmsar skoðunarferðir farnar áður en þingið hófst. Eftirminnilegt er boð gestgjafanna í Washingtofylki í upphafi ráðstefnunnar sem samanstóð af hressingu á árbakkanum og jasstónleikum með hljómsveit á palli úti í ánni en áhorfendur á bakkanum. Einstaklega skemmtileg stemning ríkti þar í fallegu umhverfi og góðu veðri. Síðan var heilmikil menningardagskrá á eftir í aðalsal ráðstefnuhallarinnar með kórsöng, sekkjapípuhljómsveit og danssýningu þar sem dansaðir voru skoskir og írskir dansar. Margt í þeirri dagskrá var kunnuglegt og greinilegt að norðurevrópsk menning er í hávegum höfð í Washingtonfylki. Þær konur sem hafa sótt Golden Gift leiðtoganámskeið samtakanna í Austin hittust í miklu teboði og skemmtu sér saman um stund og einnig eru ýmsir aðrir hópar sem finna sér lausan tíma í dagskránni til að hittast. Einstök ríki eða einstaklingar halda líka sérstök boð á kvöldin.
Lærdómar
Ég hef áður sagt í pistli um alþjóðaþing DKG að nauðsynlegt sé að upplifa það til að gera sér grein fyrir styrk og fagmennsku samtakanna okkar. Það var ótrúlega oft í dagskránni sem maður hugsaði með sér: „hvílík forréttindi að fá að tilheyra slíkum samtökum og fá að njóta þess sem þau bjóða.“
Örfá dæmi um lærdóma:
- Að fylgjast með fundarstjórn þar sem hátt í 2000 konur koma sér saman um lagabreytingar, koma með breytingartillögur og andmæla og allt gengur smurt í tíma og rúmi er einstök kennslustund í lýðræði og stjórnun.
- Að kynnast starfsemi nefnda og ráða og fylgjast með hugleiðingum sem sýna virðingu fyrir menntun og viðleitni til að þróast stöðugt áfram og vera í fararbroddi, bæði faglega og persónulega, kveikir stolt og metnað hjá þeim sem á hlýðir.
- Að kynnast konum víða að úr heiminum, vinna með þeim, gleðjast með þeim og jafnvel takast á um hugmyndir og leiðir opnar nýjar tengingar í eigin starfi.
- Að koma á nýja staði þar sem heil vika með skemmtilegum viðburðum frá morgni til kvölds er lögð að fótum manns er ótrúlega skemmtileg leið til að njóta sumarfrís á skapandi hátt.
- Að fá tilfinningu fyrir menningu og viðhorfum þess ríkis sem gegnir gestgjafahlutverkinu hverju sinni er ómetanlegt innsýn sem ekki lærist af bókum!
Prófiði bara!
Næsta alþjóðaþing verður haldið í Indianapolis 28. júlí – 1. ágúst 2014.
Næsta Evrópuþing verður íHollandi 2013.
Byrjum strax að safna fyrir ferðum!
Sigrún Jóhannesdóttir Deltadeild.
Myndir frá þinginu má sjá í myndasafni
Síðast uppfært 11. maí 2017