Framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun starfstímabilið 2007–2009

Að hluta til byggist áætlunin á framkvæmdaáætlun alþjóðaforsetans.

Útbreiðsla

  1. Unnið verði að stofnun nýrrar deildar á starfstímabilinu.
  2. Markmið verði að fjölga í hverri deild um fjórar félagskonur og þar af hafi tvær þeirra minna en 10 ára starfsreynslu á sviði kennslu og menntamála.
  3. Nýir félagar hafi sem fjölþættasta menntun, reynslu og sinni ólíkum störfum sem tengjast menntageiranum.

Stuðningur við nýbrautskráða kennara

  1. Á vegum alþjóðasambandsins hefur verkefni um stuðning við nýbrautskráða kennara, Collaborative Connections, verið hleypt af stokkunum. Er það gert í ljósi mikils brottfalls kennara í sumum löndum, einkum ungra kennara. Sjá tillögur og dæmi á heimasíðu alþjóðasamtakanna. Deildir og landssambandið vinni að því að finna leiðir til að styðja við nýja kennara og geri það að verkefni. Einhverjir þeirra eru framtíðarmeðlimir í samtökunum.
  2. Stefnt verði að því að málefni nýlega brautskráðra kennara verði þema næsta þings samtakanna.

Sí- og endurmenntun

  1. Félagskonur eru hvattar til að vera enn virkari við að afla sér sí- og endurmenntunar, bæði formlega og óformlega, í þeim tilgangi að efla hæfni, þroska og þekkingu og auka þannig lífsgæði. Ýmiss konar efni tengt þessu mun verða aðgengilegt á vef alþjóðasamtakanna.
  2. Starfsemi deilda styðji við slíka viðleitni eftir því sem hentar og við á og hvatt verði til þess að félagskonur verði virkari við að miðla efni hver til annarrar svo og deildir sín á milli.
  3. Deildir og einstakar félagskonur eru hvattar til þess að kynna sér margvíslega möguleika til styrkveitinga alþjóðasamtakanna bæði til náms og verkefna.

Innlend samskipti

  1. Deildir eru hvattar til að efla samvinnu sín í milli, t.d. með sameiginlegum fundum, stofnun vinadeilda, enn frekari skiptum á upplýsingum um starfið í viðkomandi deild, heimsóknum á fundi í öðrum deildum þegar tækifæri gefast.
  2. Félagskonur bjóði öðrum deildum en sinni eigin að halda fyrirlestur henti það.

Útgáfu- og upplýsingamál

  1. Landssambandið og allar deildir verði virkir notendur íslensku vefsíðunnar og sinni uppfærslu efnis eftir því sem við á.
  2. Félagskonur verði virkari notendur vefsíðu alþjóðasamtakanna.
  3. Íslenska vefsíðan verði tengd við vefsíðu alþjóðasamtakanna.
  4. Íslensk útgáfa handbókar samtakanna verði endurskoðuð
    á starfstímabilinu.
  5. Kynningarbæklingur verði endurskoðaður á tímabilinu.
  6. Fréttabréfið verði áfram póstsent til félagskvenna, en auk þess sett á netið.
  7. Félagskonur eru hvattar til þess að lesa reglulega Fréttabréfið, News, Bulletin og Euforia. Formenn/stjórnir deilda hafi forgöngu um að vekja athygli á efni ritanna.
  8. Skoðað verði hvort gera eigi félagatalið aðgengilegt á íslensku vefsíðunni.

Erlend samskipti

  1. Félagskonur eru hvattar til þess að gefa kost á sér til nefndarsetu á erlendum vettvangi samtakanna, þannig að tilnefnda megi þær í nefndir svæðisbundið og á alþjóðavettvangi samtakanna.
  2. Félagskonur eru hvattar til þess að gefa kost á sér til fyrirlestrahalds á erlendum vettvangi samtakanna.

Styrkir

  1. Leitað verði leiða til þess að efla námsstyrkjasjóð.
  2. Landssambandið hafi forgöngu um að kynna deildum betur möguleika til styrkveitinga á vegum alþjóðasamtakanna.
  3. Félagskonur eru hvattar til að sækja um styrki í sjóði alþjóðasamtakanna.
  4. Félagskonur eru hvattar til þess að kynna sér sjálfar þá möguleika sem bjóðast með því að skoða vefsíðu alþjóðasamtakanna.

Lagafrumvörp og fleira

  1. Einstakar deildir og landssambandið, eftir því sem við á, fylgist með gerð laga og reglugerða um málefni sem samtökin vilja láta sig varða um skólamál, önnur menntamál, menningarmál og velferðarmál í íslensku samfélagi og senda umsagnir sínar og ábendingar til viðkomandi aðila.
  2. Einnig getur átt við að koma með ábendingar til samtaka kennara o.fl.

Framlag kvenna til samfélagsins

  1. Deildir eru hvattar til að kynna sér sérstakt framlag kvenna til samfélagsins fyrr og nú, t.d. í nærsamfélagi þeirra.
  2. Deildir veki athygli á framlagi kvenna til mennta-, menningar- og velferðarmála og ýmissa annarra samfélagsmála í nærsamfélagi þeirra, t. d. með því að heiðra konur á stórafmælum deilda eða með öðrum hætti.


Síðast uppfært 01. sep 2008