Vorráðstefna 2018

Það var bjartur og fallegur morgunn á Egilsstöðum laugardaginn 5. maí þegar DKG konur blésu til vorráðstefnu samtakanna. Zetadeildin á Austurlandi ásamt menntamálanefnd samtakanna hafði haft veg og vanda af undirbúningi ráðstefnunnar sem fram fór í Egilsstaðaskóla. Ráðstefnuna sóttu á sjötta tug kvenna, alls staðar að af landinu. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var Sköpun, gróska og gleði sem var vel við hæfi því af öllu þessu virtist nóg af að taka á Austurlandi. Fyrirlesarar komu úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að vera forkólfar á sviði sköpunar, hafa sýnt frumkvæði og sköpunarkraft í störfum sínum víða um Austurland.

Ráðstefnan hófst með morgunhressingu og skráningu en síðan tók fundarstjóri, Helga Magnea Steinsson formaður Zetadeildar og í stjórn landssambandsins við og setti ráðstefnuna en að því loknu flutti Jóna Benediktsdóttir landssambandsforseti stutt ávarp og bauð ráðstefnugesti velkomna. Hún minntist nýlega látinna félagskvenna, þeirra Áslaugar Brynjólfsdóttur og Þuríðar J. Kristjánsdóttur sem báðar voru öflugar félagskonur. Jóna minnti á að það að vera virkur og taka þátt gefur af sér orku sem eykur orku og nýjar hugmyndir fæðast. Í því samhengi minnti hún á að enn vantar konur í nokkrar nefndir til undirbúnings Evrópuráðstefnunnar 2019.

Fyrsti fyrirlesari dagsins var Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú. Erindi hennar bar heitið: Orkan í menningu og listum á Austurlandi. Hún rakti áherslur og þróun menningarmála á Austurlandi og gaf í erindi sínu gott yfirlit yfir það gróskumikla starf sem á sér stað vítt og breytt um fjórðunginn. Meðal annars sagði hún að árið 2000 hafi verið ákveðið að vinna menningarstefnu fyrir allt Austurland, fyrstan landsfjórðunga. Þróunarfélag Austurlands stýrði þeirri vinnu og til varð ný stefna í menningarmálum fyrir öll sveitarfélög sem þá tilheyrðu Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Í framhaldi af því gerðu SSA og ráðuneyti menntamála með sér menningarsamning. Þar var ákveðið skref stígið í þá átt að efla menningaruppbyggingu á landsbyggðinni og færa valdið heim í landshlutann. Nokkur öflug menningarverkefni voru í landshlutanum þegar menningarstefnan varð til og að sjálfsögðu var áhersla á að viðhalda þeim og efla en einnig að brydda upp á nýjum. Signý sagði að menning og listir væru stórt aðdráttarafl ferðamanna til Austurlands, sérstaklega yfir sumartímann . Þar leika hátíðir eins og LungA, Eistnaflug og Bræðsla þar sem gestir margfalda fjölda íbúa viðkomandi byggðalaga þann tíma sem hátíðirnar standa yfir, stórt hlutverk.

Að loknu erindi Signýjar léku þær Rán og Briet Finnsdætur og Þuríður Nótt Björgvinsdóttir nemendur úr Tónlistarskóla Egilsstaða á fiðlu ásamt kennara sínum Charles Ross við góðar undirtektir þingkvenna.

Nú var komið að næsta erindi en það bar heitið: Lunga skólinn á Seyðisfirði og forsagan. Aðalheiður Borgþórsdóttir fjármálastjóri Lunga og ein af stofnendum Lunga hátíðarinnar sagði okkur frá stofnun og þróun LungA skólans (List -Ung fólk – Austurland) sem varð til í kjölfar Lungahátíðarinnar sem upphaflega var sett á laggirnar árið 2000 til að glæða áhuga og örva löngun ungs fólks á Austurlandi fyrir sköpun og menningarstarfi. Á LungA hátíð er boðið upp á námskeið og listasmiðjur og eru leiðbeinendur starfandi listamenn sem eru að gera áhugaverða hluti. LungA skólinn sprettur úr þessum jarðvegi og er stofnaður árið 2013. Markmiðið hans er að vera heimili fyrir hina ungu og leitandi, bjóða upp á aðstöðu, leiðbeinendur og daglega umgjörð til að geta þroskast og þróast. Einnig er byggt á hugmyndum lýðháskólanna. Önnin spannar 12 vikur og er boðið upp á tvær slíkar á ári. Engin próf eru við skólann, engin inntökuskilyrði, ekkert aldurstakmark, engir rammar. Sýningar og uppákomur eru í hverri viku. Áhrif skólans á samfélagið eru margvísleg. Íbúafjöldi Seyðisfjarðar eykst yfir veturinn, ungt fólk er sýnilegra í samfélaginu og meira líf er í bænum.

Að loknu erindi Aðalheiðar var ráðstefnukonum skipt í 9 hópa og ræddu hóparnir erindi morgunsins þar sem líflegar umræður sköpuðust. Að þeim loknum var borinn fram hádegisverður sem ekki var af „verri endanum“. Þegar allir voru orðnir mettir tók Carolyn Pittmann forseti alþjóðasambandsins til máls. Hún flutti greinagott yfirlit yfir starfsemi samtakanna, benti á hvað helst er á döfinni fram undan og hvaða þætti leggja beri áherslu á. Björg Nakling Evrópuforseti tók næst til máls og flutti okkur stutta tölu sem lauk með því að hún hvatti okkur til að sækja alþjóðaþingið í Austin á sumri komanda en Evrópusvæðið á 20 ára afmæli um þessar mundir og verður þess minnst í Austin.

Þegar þessir erlendu gestir okkar höfðu lokið máli sínu lásu tveir nemendur í Egilsstaðaskóla, þær Hekla Arinbjörnsdóttir og Katrín Edda Jónsdóttir upp ljóðið Urð og grjót eftir Tómas Guðmundsson. Í framhaldi af því vakti Sigríður Ruth Magnúsdóttir skólastjóri Egilsstaðaskóla athygli okkar á ljóði sem blasir við á vegg í matsal skólans. Þetta ljóð er skólasöngurinn. Sigþrúður Sigurðardóttir samdi textann en Charles Ross samdi lagið. Að lokinni kynningunni söng Ruth fyrir okkur skólasönginn við góðar undirtektir viðstaddra.

Nú var komið að þriðja erindi dagsins en það var Ólöf Björk Bragadóttir myndlistarkona og verkefnastjóri listabrautar Menntaskólans á Egilsstöðum sem hélt fróðlegt erindi um störf sín sem myndlistarkona og kennari. Erindið nefndi hún: Látum verkin tala. Í erindinu kynnti hún meistaraverkefni sitt úr Listaháskólanum 2016 en þar skoðaði hún hvernig listsköpun getur nýst þegar kemur að því að leysa vandamál, t.d. innan sjálfbærrar þróunar. Áhersla er á að tengja nemendur við eigin menningarheim og umhverfi og benda á möguleikana til að hafa áhrif á eigið samfélag. Verkefnið var unnið í samræmi við hæfniviðmið í opinberri námskrá.

Síðasta erindi dagsins fluttu þær Lilja Guðný Jóhannesdóttir og Svanlaug Aðalsteinsdóttir frá Verkmenntaskóla Austurlands. Erindið nefndu þær: Tækni og listir í Verkmenntaskóla Austurlands, Fab Lab og Listaakademía. Lilja hefur þróað Fab Lab kennslu fyrir nemendur og almenning en FabLab er stytting á enska heitinu ,,fabrication laboratory” og er stundum kölluð stafræn smiðja á íslensku. Hér er um nýsköpun í framhaldsskólastarfi að ræða sem býður upp á fjölbreytt viðfangsefni og skapandi hugsun. Vangaveltur eru um að stofna nýja braut í VA, nýsköpunar- og tæknibraut, sem byggir á FabLab smiðju. Hægt væri að fá kennsluna frá Boston í fjarkennslu. Áherslan er á lausnamiðlun, nýsköpun, gagnrýna hugsun, samvinnu, samskipti, tæknilæsi og frumkvöðlahátt.
Svanlaug er verkefnastjóri Listaakademíu skólans sem ætluð er nemendum sem vilja kynnast list á sem fjölbreyttasta máta, þó með aðaláherslu á leiklist. Lögð er áhersla á félagsþroska nemenda og m.a. unnið með framsögn, framkomu, tjáningu, listsköpun, samvinnu og tónlist. Nemendur fá starf sitt í Listaakademíunni metið til námseininga. Það er ekki bundið við neina sérstaka braut í skólanum, heldur eru þar nemendur af öllum brautum skólans. Nemendur kynnast því innbyrðis á annan hátt en annars væri mögulegt. Nemendaleikfélag skólans nefnist Djúpið. Fyrsta verk þess fór á svið 2006 en síðan þá hafa verið sett upp 12 verk.
Þegar þær Lilja og Svanlaug höfðu lokið erindi sínu voru hópumræður líkt og um morguninn þar sem konur ræddu erindi eftirmiðdagsins og hvaða lærdóm mætti draga af þeim. Ljóst er að þau erindi sem flutt voru endurspegla aðeins brot af þeirri sköpun og grósku sem á sér stað á Austurlandi.

Að lokinni þessari hefðbundnu ráðstefnudagskrá var ráðstefnugestum boðið í móttöku í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Þar tóku á móti okkur þau Björn Ingimarsson bæjarstjóri, Elsa Guðný Björgvinsdóttir safnvörður og Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri og Zetasystir og fræddu okkur um safnið.

Þessum frábæra degi lauk svo með hátíðarkvöldverði á Gistihúsinu á Egilsstöðum þar sem snæddur var ljúffengur kvöldverður. Á milli rétta sáu þingkonur um að skemmta hver annarri með ýmiss konar uppákomum. Það var sungið, sagðar skemmtisögur úr skólastarfi, þrautir voru leystar og fluttir voru bragir. Eftirminnilegast er þó sennilega hugleiðing sem Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir í Nýdeild flutti okkur um orðið systir og hvernig túlka má það hugtak á margvíslegan hátt.

Myndir frá ráðstefnunni eru í myndaalbúmi.

Eygló Björnsdóttir
Betadeild

Dagskrá til útprentunar


Síðast uppfært 02. okt 2020