Vorráðstefna 2014

Vorráðstefna 2014 var haldin Í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 10. maí. 

SKÓLI Á NÝJUM TÍMUM
Lýðræði - sköpun - tækni.


Vorráðstefna landssambands DKG var að þessu sinni haldin í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Ráðstefnan var vel sótt en rúmlega 60 konur sóttu hana. Erindin fjölluðu öll á einn eða annan hátt um skóla á nýjum tímum, lýðræði, sköpun og tækni og voru öllum skólastigum gerð skil. Auk erindanna voru tónlistaratriði sem báru fjölbreyttu menningarlífi Ísfirðinga gott vitni. Við setningu þingsins spilaði píanóleikarinn Mikolaj Frach nokkurlög og er greinilegt að þar er hæfileikaríkur ungur piltur á ferðinni. 
 
Fyrsta erindið bar heitið Upplýsingatækni og nýir miðlar í skólastarfi en þar fjallaði Dr. Svava Pétursdóttir um uppýsingatækni í skólastarfi frá ýmsum hliðum. Fróðlegt var að heyra hvernig samfélagsmiðlar geta nýst í skólastarfi og að kynnast því hvernig miðill eins og Facebook getur verið vettvangur þar sem kennarar styðja hvern annan í starfi. Á eftirfarandi slóð má nálgast glærur Svövu: http://www.slideshare.net/svavap/ut-sklastarfi.
 
Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri og Guðríður Sigurðardóttir kennari sem báðar starfa við Grunnskólann á Ísafirði sögðu frá nemendaþingi sem haldið var við skólann. Áhugavert var að heyra hvernig staðið var að þinginu, því fylgt eftir og síðan unnið úr því. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun þessa verkefnis í framtíðinni.
 
Albertína F. Elíasdóttir verkefnisstjóri FabLab á Ísafirði sagði frá möguleikum FabLab smiðjunnar til að skapa og hanna hluti frá upphafi til enda. Í erindinu sýndi hún einnig hluti sem hafa orðið til í smiðjunni. Ljóst er að FabLab eru engin takmörk sett.
 
Síðasta erindi dagsins hélt Elsa María Thompson skólastjóri heilsuleikskólans Laufáss á Þingeyri. Hún sagði frá skólastarfinu og fjölbreyttu samstarfi hans við grunnskólann á Þingeyri og aðra leikskóla í Ísafjarðarbæ.
 
Í lok ráðstefnunnar söng sópransöngkonan Sigrún Pálmadóttir frá Bolungarvík nokkur lög. Og til gamans má geta þess að Sigrún er dóttir Iota konunnar Steinunnar Guðmundsdóttur aðstoðarskólastjóra Grunnskóla Bolungarvíkur. 
Í lok dagsins var svo boðið uppá tvenns konar sögugöngur sem báðar enduðu í Safnahúsinu á Ísafirði, eða Gamla Sjúkrahúsinu þar sem Iota konur voru með stutta móttöku. 
 
Síðasta atriðið á góðri dagskrá var svo hátíðarkvöldverður í Tjöruhúsinu þar sem "rúsínan í pylsuendanum" var söngatriði þar sem ein af framreiðslustúlkunum, Salóme Katrín Magnúsdóttir, söng fyrir okkur. Því má bæta við að Salóme er nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði og var fulltrúi hans í Söngvakeppni framhaldsskólanna í ár.
 
Við vorum þrjár úr samskipta- og útgáfunefnd sem sóttum vorráðstefnuna og erum allar sammála um að við komum reynslunni ríkari til baka, enda er afskaplega gefandi og skemmtilegt að sækja ráðstefnu sem þessa. Við fræddumst heilmikið um skóla- og fræðslumál á norðanverðum Vestfjörðum, þekkjum nú betur til sögu svæðisins, fengum menningarlegan innblástur og næringu, upplifðum náttúruna á ferð okkar og síðast en ekki síst þá var ferð þessi einstakt tækifæri til að kynnast enn betur. Við viljum því eindregið hvetja konur til að sækja vorráðstefnur og landssambandsþingin og fræðast og kynnast, njóta og upplifa.
 
 

Síðast uppfært 02. okt 2020