Landssambandsþing 2019
Landssambandsþing haldið í Kvennaskólanum í Reykjavík laugardaginn 4. maí 2019.
Þema þingsins: Lífsins vegur – leiðsögn og nám
Að þessu sinni stóð þingið einungis yfir í einn dag þar sem alþjóðaþingið verður haldið hér á landi í júlí í sumar. Alfa- og Kappadeild ásamt menntamálanefnd og stjórn landsambandsins sáu um undirbúning þingsins.
Tekið var á móti þinggestum milli klukkan 9:30-10:00 með kaffi og kleinum við undirspil gítarleikara. Þingið hófst svo klukkan 10:00 með því að Jóna Benediktsdóttir, forseti landssambandsins, kveikti á kertum vináttu, hjálpsemi og trúmennsku og bauð þingkonur velkomnar.
Eygló Björnsdóttir úr Betadeild flutti Orð til umhugsunar og fjallaði um vorkomuna þegar náttúran vaknar af dvala og nemendur í skólum landsins ljúka prófum og flykkjast út í sumarið. Hún las nokkur ljóðbrot um vorkomuna eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og ljóð um vorið eftir Elísabetu Geirmundsdóttur listakonu frá Akureyri.
Sigríður Guðnadóttir í Epsilondeild flutti minningarorð um fjórar félagskonur sem létust á tímabilinu, þær Áslaugu Brynjólfsdóttur í Alfadeild, Þuríði J. Kristjánsdóttur í Alfadeild, Kristínu Thorlacius í Deltadeild og Sigrúnu Aðalbjarnardóttur í Gammadeild. Fundarkonur risu úr sætum til að heiðra minningu þeirra
Lace-Marie Brogden, annar varaforseti alþjóðasambandsins ávarpaði því næst þingið og færði okkur kveðjur frá stjórn alþjóðasambandsins. Hún fjallaði um það sem helst hefur verið á döfinni hjá alþjóðasambandinu þetta tímabil en margvísleg þróun á sér stað hjá samtökunum. Að ávarpi hennar loknu var gengið til hefðbundinnar dagskrár aðalfundar.
Aðalfundur:
Helga Guðný Halldórsdóttir úr Gammadeild var tilnefnd sem fundarstjóri og Jónína Hauksdóttir út Betadeild henni til aðstoðar og fundarritarar þær Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, ritari landssambandsstjórnar og Ragnheiður Axelsdóttir, ritari Kappadeildar. Að því loknu var gengið til dagskrár.
Jóna Benediktsdóttir, forseti landssambandsins flutti skýrslu stjórnar fyrir árin 2017-2019 og Jensína Valdimarsdóttir í Deltadeild, gjaldkeri landssambandsins lagði fram reikninga landssambandsins og rekstaráætlun sem hvoru tveggja var samþykkt samhljóða. Samþykkt var að ársgjald til landssambandsins yrði áfram 10.000 krónur eins og á síðasta tímabili.
Þessu næst kynnti Guðbjörg M. Sveinsdóttir í Þetadeild störf uppstillingarnefndar þetta tímabil en hlutverk hennar er að tilnefna konur í landssambandsstjórn næstu tvö árin. Tillaga uppstillingarnefndar um nýja stjórn var samþykkt samhljóða.
Miklar breytingar voru gerðar á lögum og reglugerðum samtakanna á síðasta alþjóðaþingi í Austin í Texas. Laganefnd ásamt lögsögumanni landssambandsins hefur yfirfarið okkar lög og reglugerðir til samræmis og einnig einfaldað og bætt framsetningu á okkar útgáfu laganna. Jóna landssambandsforseti kynnti starf nefndarinnar og laga- og reglugerðarbreytingarnar. Engar athugasemdir bárust og voru þær því samþykktar samhljóða.
Úthlutað var úr Námsstyrkjasjóði, en þær Ingileif Ástvaldsdóttir Mýdeild og Aníta Jónsdóttir Betadeild hlutu styrk að þessu sinni.
Að lokum gerði Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir í Alfadeild, formaður stýrihóps vegna alþjóðaráðstefnunnar í Reykjavík í sumar, grein fyrir stöðu mála varðandi ráðstefnuna og hvatti þingkonur til að skrá sig sem fyrst.
Að erindi Ingibjargar loknu var gengið til hádegisverðar sem kokkur Kvennaskólans reiddi fram og var gerður góður rómur að matnum auk þess sem konur gátu notað tækifærið og spjallað við aðra þinggesti en það er einn af kostum þess að mæta á þing að geta styrkt vináttuböndin.
Eftir hádegishlé ávarpaði Jóna landssambandsforseti þingið. Hún ræddi um starfið í DKG og markmið þess og tengdi í víðara samhengi, einkum varðandi jafnréttismál. Hún fór yfir það að takast á við forystuhlutverk í samtökunum, samveru og samstillingu hugans með þeim konum sem hafa svipuð áhugamál.
Fyrsta erindið flutti Lace-Marie Brogden, PhD, annar varaforseti alþjóðasambandsins. Erindið nefndi hún Leadership. Hún lagði áherslu á það að leiðtogar fyndu sinn eigin stjórnunarstíl sem þeim liði vel með og leiddu frá þeim stað sem þeir væru staddir á eða það sem hún kallaði „Leading from where you are“.
Næsta erindi flutti Dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í Gammadeild. Erindið nefndi hún: „Hlúð að velferð ungs fólks- Hvað getum við gert?“ Hún hefur nýlega gefið út bók sem byggir á langtímarannsókn hennar á lífssögum ungs fólks og hóf erindi sitt á að lesa upp úr bókinni „Amma - draumar í lit“ eftir Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur um viðbrögð barns við ólíkri framkomu fullorðins fólks og velti fyrir sér hvaða veganesti kæmi börnum best.
Að erindi Sigrúnar loknu var þingkonum skipt upp í fjögurra manna hópa sem fengu það viðfangsefni að ræða hvað við félagar í DKG getum gert til að hlúa að velferð barna og ungmenna. Svörum var safnað saman og afrakstur umræðnanna fylgir hér með þessari samantekt.
Að loknum þessum erindum var þingkonum þakkað fyrir daginn, fulltrúum nefnda færðar rósir fyrir vel unnin störf og Jóna þakkaði samstarfskonum í stjórn fyrir samstarfið og færði þeim að gjöf kertastjaka, sem hún hafði prentað á merki DKG.
Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir nýr forseti Landsbandsins ávarpaði þinggesti og þakkaði það traust að vera kosin forseti. Hún sagði konur í DKG duglegar og kraftmiklar og hún sagðist hlakka til samstarfs við þær. Í lokin leiddi Soffía Vagnsdóttir söng og sungu félagskonur „Lóan er komin“ við raust við píanóundirleik Soffíu.
Jóna sleit þinginu formlega kl. 15.15 en eftir þingslit var boðið upp á kaffi og meðlæti að hætti kokksins í Kvennaskólanum. Að kaffihléi loknu var fræðsla fyrir gjaldkera deilda í umsjón Lace Marie Brogden, fulltrúa alþjóðasamtakanna.
Myndir frá þinginu eru í myndaalbúmi
Síðast uppfært 14. maí 2019