Að afloknu landssambandsþingi

Sigríður Valgeirsdóttir stjórnar dansi á hátíðarkvöldverðinum
Sigríður Valgeirsdóttir stjórnar dansi á hátíðarkvöldverðinum
Landssambandsþing DKG fór fram um síðustu helgi eða nánar tiltekið 7.–8. maí 2011 í Reykjanesbæ. Þingið þótti takast afar vel. Þingið hófst með setningu klukkan 9:00 á laugardagsmorgninum og var dagskrá allan daginn til klukkan 16:00. Mörg áhugaverð erindi um skólastarf vítt og breitt um landið voru flutt og var gerður góður rómur að dagskránni.  Að dagskrá lokinni var farið í menningarferð um Reykjanesbæ undir stjórn Valgerðar Guðmundsdóttur í Þetadeild. Var sérlega áhugavert að heimsækja Víkingaheim þar sem Kvennakór Suðurnesja tók á móti okkur með fallegum söng. Menningarferðinni lauk með viðkomu í Duushúsum þar sem skoðaðar voru þær sýningar sem í boði eru. 

Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í umsjá Þetasystra þar sem ýmis skemmtiatriði voru á dagskrá og er vægt til orða tekið að segja að kvöldið hafi verið frábært. Þess má geta að við hátíðarkvöldverðinn voru þær Sigríður Valgeirsdóttir í Alfadeild og Pálína Jónsdóttir í Gammadeild heiðraðar fyrir langt og óeigingjarnt starf á vegum samtakanna.
Á sunnudagsmorgninum var svo haldinn aðalfundur samtakanna þar sem ný stjórn var kjörin til næstu tveggja ára.

Við þökkum Þetasystrum og Mennta- og menningarmálanefnd samtakanna fyrir skemmtilegt og fræðandi þing.