Bryndís Steinþórsdóttir er látin
Bryndís Steinþórsdóttir, hússtjórnarkennari, lést að morgni 30. júlí, tæplega 91 ára að aldri. Bryndís var stofnfélagi Gammadeildar Delta Kappa Gamma, en deildin var stofnuð 5. júní 1977. Bryndís var mjög virk í starfi Gammadeildar og mætti vel á fundi. Hún var a.m.k. einu sinni í stjórn Gamma og var þá ritari sem hún vann afar vel enda samviskusöm og sérstaklega vandvirk í öllu sem hún gerði.
Bryndís er annar af tveimur höfundum bókarinnar Við matreiðum, sem kom fyrst út 1976 og í sjötta sinn árið 2018 endurskoðuð af höfundum. Bókin hefur verið notuð til kennslu í grunn- og framhaldsskólum um langa tíð og hún er einnig vinsæl á heimilum landsmanna. Í mörg ár skrifaði hún einnig pistla í Listin að lifa, málgagn eldri borgara, um matreiðslu og fl. Í Hljóðsafninu, sem geymir hljóðrit Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, má hlusta á viðtal við Bryndísi sem hljóðritað var í ágúst 2008 þar sem hún rekur m.a. starfsferil sinn.
Bryndís var einstaklega smekkleg, glöð og jákvæð og allt fallegt í kring um hana. Delta Kappa Gamma, félag kvenna í fræðslustörfum kveður mæta félagskonu og vottar aðstandendum dýpstu samúð. Blessuð sé minning Bryndísar Steinþórsdóttur.