Dagur gegn einelti - 8. nóvember 2011

Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti hefur ákveðið að standa fyrir degi gegn einelti 8. nóvember 2011. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis,  mennta- og menningarmálaráðuneytis og  velferðarráðuneytis og er hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010. 
Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti. Forsætisráðherra er verndari átaksins og munu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrita sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum.
Ýmislegt er að hægt að gera í tilefni dagsins, s.s. að halda upp á hann með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu. Verkefnisstjórnin vonast til að sem flestir í samfélaginu taki þátt í því að setja umræðuna um einelti í brennidepil þennan dag - málefnið er brýnt og til mikils að vinna ef í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála um jákvæð og uppbyggileg samskipti. 

Vakin er athygli á að The Delta Kappa Gamma  Educational Foundation bjóða upp á styrki til að sækja viðburði sem hafa þetta málefni að leiðarljósi og/eða til að vinna með þetta málefni.  Nánar má lesa um þessa styrki og nálgast eyðublöð á þessari slóð.