Frá fundi Evrópunefndar (Evrópuforum) í byrjun nóvember
Europe Forum nefndin er ein fjögurra svæðanefnda innan DKG samtakanna. Fyrsti fundur EF var haldinn í Bretlandi árið 1996. Tilgangur með stofnun þessarar nefndar var m.a að þjappa evrópskum konum betur saman innan samtakanna, með sameiginlegum markmiðum og vettvangi til opinnar umræðu um menntamál og leiðum til að hrinda þeim í framkvæmd. Þá er markmið nefndarinnar einnig að styðja við ferðir og samskipti forseta svæðisins en Ingibjörg Jónasdóttir er nýr forseti Evrópu DKG.
Nefndin fær ákveðna upphæð til að reka sig frá höfuðstöðvum DKG og setur sér markmið hverju sinni. Í nefndinni eru fulltrúar 8 Evrópulanda, auk þess sem forseti situr fundi nefndarinnar. Hver nefndarseta tekur tvö ár og eru allar fundargerðir og ákvarðanir nefndarinnar settar inn á vef hennar einnig er um samskiptavef á fésbókinni að ræða sem konur eru hvattar til að skrá sig á.
Fundur var haldinn hjá nýrri nefnd í byrjun nóvember sl. í Rastede í Þýskalandi. Formaður nefndarinnar kemur frá Svíþjóð að þessu sinni. Gengið var frá starfsáætlun nefndarinnar þau tvö ár sem nefndin mun starfa. Meðal verkefna nefndarinnar eru samskiptamál, konur hvattar til að tjá sig á fésbókarsíðunni og á vef samtakanna um verkefni sem konur eru að vinna að vítt og breytt um Evrópu m.a. í veftímaritinu Euforia. Stuðla að samskiptum kvenna milli landa, milli alþjóðlegra nefnda og forseta svæðisins. Einnig að hveta til samskipta um t.d kennaraskipti og þátttöku í alþjóðlegu nefndarstarfi. Þá var rætt um mikilvægi þess að fjölga DKG konum á evrópska svæðinu og horft til landa eins og Íslands um árangursríkar aðferðir í þeim efnum. Fjármál nefndarinnar voru á dagskrá auk þess sem nefndin gekk frá vali á DKG konu í Evrópu fyrir vel unnin störf í þágu Evrópu undanfarin ár( Achievement Award winner), en tilkynnt verður um niðurstöðuna á Alþjóðaþinginu í Reykjavík næsta sumar. Þá var rætt um hugsanlega Pre-conference ráðstefnu nefndarinnar í tengslum við Alþjóðaráðstefnuna og skipulag aðalfundar. Allar frekari upplýsingar gefur undirrituð ef þess er óskað, en næsti netfundur nefndarinnar fer fram í janúar á næsta ári.
Helga Magnea Steinsson fulltrúi Íslands í Europe Forum nefndinni 2018 -2020