Gyða Bergþórsdóttir félagi í Deltadeild er látin

Gyða Bergþórsdóttir félagi í Deltadeild lést á Hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi þann 4. ágúst 2024.
Hún fæddist þann 6. apríl 1929.
Gyða starfaði alla tíð að uppeldis- og kennslumálum auk þess að hlúa að gróðri og koma upp miklum skógi við Efri-Hrepp með manni sínum. Söngur og tónlist átti hug hennar og sinnti Gyða söng í kórum og lék á orgel svo lengi sem orkan leyfði.  Hún sótti sér réttindi til kennslu á fullorðinsaldri og lét ekki þar við sitja, heldur bætti síðar við námi í sérkennslufræðum. Hún leiddi starf grunnskólamenntunar í Andakílshreppi, fyrst á heimili sínu í Efri-Hrepp og síðan á Hvanneyri, þar sem hún gegndi starfi skólastjóra.
Hún var stofnfélagi Deltadeildar árið 1987 og var sannarlega ein af dyggustu félagskonum fram á síðasta dag, sýndi starfinu brennandi áhuga og stuðlaði að framgangi þess af fremsta megni. Gjaldkerastarfi deildarinnar sinnti hún af fádæma alúð og nákvæmni 1990-2006. Deltakonur kveðja nú mæta manneskju sem var þeim mikil fyrirmynd og góður félagi. Félagar í Delta Kappa Gamma minnast Gyðu með þakklæti og votta aðstandendum hennar sína dýpstu samúð.

Útför Gyðu fer fram frá Akraneskirkju kl.  11:00 þann 16. ágúst og verður streymt frá athöfninni inni á akraneskirkja.is