Kristín Steinarsdóttir í Etadeild látin

Kristín Steinarsdóttir, félagi í Eta deild frá 2004, lést á Landspítalanum við Hringbraut 12. nóvember síðastliðinn eftir erfið veikindi. Við Delta Kappa Gamma systur minnumst hennar með þakklæti í huga fyrir vel unnin störf í okkar þágu og vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.  Guð blessi Kristínu Steinarsdóttur.

Eftirfarandi ágrip um Kristínu er tekið af vef Morgunblaðsins :

Kristín Steinarsdóttir, kennari og kennsluráðgjafi, lést á Landspítalanum við Hringbraut hinn 12. nóvember sl., 53 ára að aldri.

Hún fæddist í Reykjavík 1. maí 1959, dóttir hjónanna Steinars Guðjónssonar, fyrrverandi bóksala og bókaútgefanda, og Elsu Pétursdóttur húsmóður.

Kristín ólst upp í Kópavogi og gekk í Kópavogsskóla, þá í Kvennaskólann í Reykjavík, en útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1979. Hún lauk kennaraprófi (B.Ed.-gráðu) frá Kennaraháskóla Íslands 1983. Árið 1986 lauk hún MA-gráðu frá Stanford University í gagnvirkri kennslutækni (Interactive Educational Technology), með áherslu á nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. Árið 2005 lauk hún diplómanámi í tölvum og upplýsingatækni frá Kennaraháskóla Íslands.

Á árunum 1981-1983 kenndi Kristín við Tölvuskólann á námskeiðum fyrir börn og fullorðna, 1983-1985 kenndi hún ritvinnslu og forritun við Verslunarskóla Íslands, 1986-1989 starfaði hún við kennsluráðgjöf og námsefnisgerð hjá IBM á Íslandi, 1984-1990 var hún stundakennari í tölvu- og upplýsingatækni við Kennaraháskóla Íslands, 1996-1997 annaðist hún forfallakennslu við Grandaskóla, 1997-1999 kennslustjóri við tölvuskólann Framtíðarbörn, 2000-2002 umsjónarkennari við Háteigsskóla en frá 2005 starfaði hún sem kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni við Sjálandsskóla í Garðabæ. Þess á milli var hún heimavinnandi vegna alvarlegra veikinda yngstu dóttur sinnar.

Kristín var ein af stofnendum félagsins Einstakra barna árið 1997, til stuðnings börnum með alvarlega sjaldgæfa sjúkdóma. Hún sat í stjórn félagsins frá 2000-2003. Þá var hún félagi í The Delta Kappa Gamma Society, Eta-deild félags kvenna í fræðslustörfum.

Eftirlifandi eiginmaður hennar er Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður og eignuðust þau þrjú börn; Magnús tölvunarfræðing, Áslaugu Örnu laganema og Nínu Kristínu framhaldsskólanema.