Leiðarstjarnan
18.12.2013
Fundur var haldinn í Epsilondeild laugardaginn 16. nóvember 2013 í Vatnsholti í Flóa. Sigrún Jóhannesdóttir úr Deltadeild kom á
fundinn og kynnti fyrir okkur námskeið um markmið og leiðir til að efla innra starf deilda sem hún hefur þróað og nefnir Delta Kappa Gamma stjarnan
eða „Leiðarstjarnan.“ Við byrjuðum á að ræða saman í litlum hópum hvernig við vildum hafa fundina ef við breyttum einhverju en
vorum sammála um að við værum frekar ánægðar með okkar starf.
Sigrún dreifði möppu með gögnum sem voru kynning á Leiðarstjörnunni. Hún felur í sér 5 mismunandi þætti eða
stjörnusvið, sem eru sjálfsefling, næmi, framsýni, veruleiki og hugrekki. Sumir þessara þátta eru byggðir á leiðtogamódeli sem
nefnist The Leadership Diamond og má finna upplýsingar um á www.pib.net. Við fengum kynningu á öllum þáttum stjörnunnar en einbeittum
okkur síðan að fyrsta þættinum sem er við sjálfar! Hún benti okkur á að það væri spenna milli allra þátta
módelsins og það væri stöðug vinna hjá okkur alla ævi að fást við þá spennu í einkalífi, starfi og
félagslífi og halda stjörnuhlutföllunum réttum.
Sigrún fór yfir ýmis tæki sem nota má við sjálfseflingu og virkja betur skapandi hugsun. Huglásar hindra okkur og allir lyklar til að opna
þá lása væru tvívirkir – þeir bæði lokuðu og opnuðu!
Leiðarstjarnan byggir einnig á því að allar heilbrigðar manneskjur hafi frjálsan vilja og Sigrún kynnti línuna sem tæki til að
virkja hann. Hún talaði um skapandi forystu og benti á gögn í möppunni um 15 atriði sem árangursríkir leiðtogar notuðu dag hvern til
að læra af. Sigrún hvatti okkur til að stíga út fyrir þægindaramman og nýta þessa aðferðir til að efla okkur sjálfar,
stjórnina og deildina hjá okkur. Að lokum lét hún okkur leysa ýmsar þrautir til að efla okkur.
Félagskonur voru mjög ánægðar með fræðsluna og sammála því sem ein sagði: „Þetta var frábær fundur,
gagnlegur og skemmtilegur!“