LYKILL AÐ LÆSI - málþing á vegum Epsilondeildar
Málþing Epsilondeildar Lykill að læsi verður haldið í sal Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi fimmtudaginn 26. október næstkomandi og hefst klukkan 17:00 og lýkur klukkan 19:00.
Þar munu þrír fyrirlesarar halda mjög áhugaverð erindi sem tengjast málþroska og læsi:
Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnisstjóri Lestur er lífsins leikur hjá Hafnarfjarðarbæ mun halda erindi um snemmtæka íhlutun í 1. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar. Markmiðið með verkefninu er að finna strax við skólabyrjun þá nemendur sem hugsanlega þurfa á nánari greiningu og/eða stuðningi að halda og veita íhlutun við hæfi. Einnig fjallar hún um Læsisverkefnið LÆK sem hefur það að markmiði að efla læsi og auka lestraráhuga allra nemenda á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar, á hvaða stigi í lestri sem þeir kunna að vera.
Hlíf Brynja Baldursdóttir, deildarstjóri máls og læsis í Fellaskóla mun halda erindi um samstillt átak leikskólanna Aspar og Holts ásamt Fellaskóla og frístundaheimilinu Vinafelli við að efla málþroska og læsi barna í Fellahverfi. Áherslur skólanna eru á málþroska og læsi, leiðsagnarnám og tónlist og skapandi skólastarf. Hlutfall tví- og fjöltyngdra barna í skólunum er á bilinu 80 – 90% og er íslenskt málumhverfi þeirra að mestu leyti í skólunum og frístundaheimilinu.
Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við HÍ mun halda erindið Árangursrík kennsla – „Ég get“ þar sem farið yfir gildi góðra vísindarannsókna tengdar námi og færniþróun og hvernig þær geta styrkt kennara og hjálpað þeim að velja árangursríkar aðferðir við lestrarkennslu og læsi. Einnig verður fjallað um rannsóknar og þróunarverkefnið Kveikjum neistann sem sýnir okkur hvernig orð verða til athafna og hvernig vísindi leiða til árangurs.
Málþingið er opið öllum áhugasömum og er þeim alveg að kostnaðarlausu.