Orð til umhugsunar Bryndís Guðmundsdóttir
30.04.2013
Á sameiginlegum fundi Alfa- og Þetadeilda í apríl flutti Bryndís Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri Akurskóla í
Reykjanesbæ, orð til umhugsunar. Bryndís hefur gefið ritnefnd DKG leyfi til að birta þennan áhugaverða pistil svo félagskonur í
öllum deildum fái notið og fylgir hann hér með ásamt myndum frá fundinum.
Orð til umhugsunar DKG laugardaginn 13. apríl 2013
Í gegnum árin hef ég farið á mörg námskeið og hlustað á marga fyrirlestra um menntamál og uppeldi.
Ég hef klippt út greinar og skrifað niður ýmislegt sem hefur heillað mig og ákvað ég að kíkja í þessa gullkistu mína
og taka úr henni til að nota í orði til umhugsunar.
Það fyrsta sem ég hnaut um var grein um Stephan G. Stephansson sem flutti ræðu hjá lestrarfélagi í Kanada
árið 1894 og sagði:
Eftir mínu viti fer ekki menntun manns eftir því hvort hann hefur gengið í nokkurn skóla eða engan eður hvort hann hefur lesið þessa
bók eður hina; hún fer einungis eftir því að hve miklum manni skólalærdómurinn hefur gert hann, hve mikla andlega menningu bókin hefur
veitt honum; hún er ekki eingöngu stíll í latneskri málfræði, vel af hendi leystur, né örðugt dæmi í bókstafareikningi,
rétt reiknað heldur er hún snilld og göfgi mannsins sjálfs, aðgreinaleg frá því sem hann hefur tekið til láns frá skólum
og bókum. Í fáum orðum: menntunin er hinn andlegi uppvöxtur mannsins, en ekki búningurinn, sem hlaðið er utan á hann (http://www.mbl.is/greinasafn/grein/772540/?item_num=19&dags=2003-12-31)
Annað sem hefur vakið áhuga hjá mér er að nýlega var ég að lesa um umhyggjusiðfræði en Noddings sem er bandarískur
femínisti og menntunarfræðingur fædd 1929 er þekkt fyrir hugmyndir sínar og rannsóknir varðandi umhyggju. Noddings telur umhyggju í skóla
forsendu þess að menntun eigi sér stað og hún greinir á milli náttúrulegar umhyggju sem fólk sýnir sínum nánustu og
siðferðilegrar umhyggju sem kennarar og annað fagfólk sýnir í starfi. Noddings telur að umhyggja sé grundvallarforsenda mannlífsins og að
allir óski þess að um þá sé hugsað af alúð og nærgætni. Í skrifum sínum glímir Noddings meðal annars
við spurninguna: Hvað þarf fólk að læra til að lifa hamingjusömu siðuðu vitsmunalífi? Hún telur flest svör sem hingað til hafa
verið gefin við spurningunni vera röng eða aðeins sönn að hluta. Máli sínu til stuðnings nefnir hún nokkur dæmi um fullyrðingar
í almennri umræðu um skólamál, til dæmis að börn þurfi meiri akademíska menntun, samfélagið þarfnist tækni- og
vísindamanna og menntun dragi úr glæpum og fátækt. Þessar fullyrðingar hrekur hún með nokkrum dæmum eins og að fæstir noti
algebru í daglegu lífi. Margt hámenntað tæknifólk er atvinnulaust og ef skólaganga dugir ekki til að skapa fólki atvinnu þá dregur
hún ekki úr fátækt. Samfélögum, sem ekki tekst að skapa næg störf fyrir þegna sína, hafa ekki orðið á menntunarleg
mistök heldur skapað siðferðileg mistök.
Noddings nálgast umhyggju út frá því sem hún telur sammannlega reynslu af því að þiggja og veita umhyggju. Í
umhyggjukenningu hennar er greint á milli þess að bera umhyggju fyrir einhverju og að sýna öðrum umhyggju. Umhyggja fyrir einhverju er forsenda þess að
láta sig varða og sýna umhyggju í verki sem eflir og styrkir mannleg tengsl. Noddings fullyrðir að ef umhyggju af þessu tagi skorti í skóla
þá fari engin menntun fram innan þeirra. Hún er ekki andsnúin hefðbundinni menntun heldur telur hún hættu á að þröngt
skilgreint námsefni hefti allt skólastarf. Hún telur mikilvægt að skoða hvaða áhrif það hefur á menntun fólks að
siðmenntunarþáttur heimila hafi dregist saman í kjölfar þjóðfélagsbreytinga. Hún álítur að það þurfi
að breyta aðkomu barna að námsefni í skólum, í stað þess eingöngu að tengja námsgreinar við menntun eigi að tengja menntun og
siðvit saman og vinna með námsgreinar í framhaldi af því (http://visindavefur.is/svar.php?id=58524).
Að lokum langar mig að minnast Þorvaldar Þorsteinssonar listamanns og rithöfundar sem lést nú fyrir stuttu en hugmyndir hans um börn og menntun hafa
oft snert við mér. Þorvaldur talaði mikið um að skólakerfið væri á villigötum og að við værum alltaf að þjálfa
og undirbúa nemendur undir næsta áfanga, næsta próf, næsta bekk, næsta skóla og yfirleitt allt það sem koma skal og kallað er
líf. Við erum í fimmta bekk til að komast upp í sjötta bekk og hér til þess að vera þar í stað þess að njóta
líðandi stundar og upplifa að vera bara við. Manneskja sem lærir að einblína í sífellu fram á veginn í leit að því sem
vantar upp á til að hún verði „eitthvað“ og fær ekki að kynnast sjálfri sér sem mesta ævintýrinu, hún verður
aldrei nógu góð. Við megum aldrei sætta okkur við skóla sem kennir barninu okkar að það sé ekki nóg. Barn sem fær að
vera barn veit að það er í lagi að vera utan við sig og að einbeitingarskortur getur einfaldlega þýtt að það er að taka eftir einhverju
öðru en kennarinn er akkúrat að útskýra. Við þurfum að hlúa að styrkleikum okkar og þroska þá í stað
þess að vera stöðugt að styrkja veikleika okkar.
Þorvaldur segir að okkur sé tamt að tala um menntun sem jákvæða, uppbyggilega og þjóðhagslega hagkvæma
og að við notum hugtakið ekkert ósvipað og orðin næring, vöxtur og framfarir. En hann spyr sig hvað er verið að næra? Hvað er að vaxa
og dafna og á hvers kostnað. Hann nefnir að þegar hann var í tíu ára bekk þá rétti hann upp hönd og spurði kennarann
hvenær bekkurinn færi út að safna laufum til að nota í myndir og hann fékk að vita að slíkt hátterni tilheyrði ekki í
tíu ára bekk það væri meira fyrir litlu börnin. Hann var þá fljótur að laga sig að þessum fyrirvaralausu fullorðinsárum
og henda frá sér laufunum og hafna ævintýrum, leikjum og öðrum barnaskap eða þar til hann ákvað að gerast listamaður og fór
aftur að safna laufum.
Endist varla…
Þorvaldur Þorsteinsson
Manni endist varla ævin
til að fylla þetta og falla‘ í þetta allt saman.
Manni endist varla ævin
til að sverja þetta og svíkja þetta allt saman.
Manni endist varla ævin
til að finna þetta allt sem fæstir sakna.
Manni endist varla ævin
til að vakna.
Manni endist varla ævin
til að ala þetta og urða þetta allt saman.
Manni endist varla ævin
til að bana þessu og barna þetta allt saman.
Manni endist varla ævin
til að brjóta þetta allt sem best var gefið.
Manni endist varla ævin
fyrsta skrefið.
Manni endist varla ævin
til að éta þetta ofan í sig allt saman.
Manni endist varla ævin
til að svelgja þetta og sofa úr sér allt saman.
Manni endist varla ævin
til að þegja um þetta allt sem þurfti að segja.
Manni endist varla ævin til að deyja.