Pálína Jónsdóttir félagi í Gammadeild er látin

Pálína Jónsdóttir, félagi í Gammadeild er látin 100 ára að aldri. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1944, stundaði nám í sérkennslu í Sviss 1948-1949 og lauk BA-prófi í þýsku og dönsku frá Háskóla Íslands 1967. Pálína starfaði alla tíð við kennslu og fræðslustörf auk þess að sinna ýmsum mannúðarstörfum svo sem á vegum Samtaka um kvennaathvarf, Barnaverndarfélags Reykjavíkur og sem sjálfboðaliði á vegum Rauða krossins. Hún var mikill mannvinur og hafði velferð fólks ætíð að leiðarljósi á ýmsum vettvangi.

Pálína var ein af stofnfélögum Gammadeildar og virkur félagi til æviloka. Hún var fyrsti formaður Gammadeildar, 1977 – 1978 og svo aftur 1992-1994 ásamt því að starfa sem gjaldkeri deildarinnar 1982-1992. Þá var hún tvívegis forseti landssambandsins, 1979-1981 og 1985-1987, auk þess að sinna fjölbreyttum stjórnunarstörfum innan DKG bæði innanlands og utan. Gammadeildin heiðraði Pálínu 2007 og Landssamband DKG 2011.

Við  Delta Kappa Gamma systur minnumst Pálínu sem einstakrar manneskju sem var ávallt jákvæð, hlý og hvetjandi. Við þökkum alla hennar alúð og stuðning við starfsemi samtakanna. Með virðingu og þakklæti vottum við aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Útför Pálínu verður frá Kópavogskirkju, miðvikudaginn 23. október, klukkan 15. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á líknarfélög.