Rannveig Löve í Gammadeild er látin
16.09.2015
Rannveig Löve, félagi í Gammadeild frá 1978, lést í Kópavogi síðastliðinn sunnudag 13. september. Rannveig fæddist á Bíldudal 29. júní 1920 og var því á 96. aldursári er hún lést.
Rannveig lauk kennaranámi og síðar námi í sérkennslufræðum enda mikil áhugamanneskja um lestrarnám barna. Hún kenndi til fjölda ára við Melaskólann í Reykjavík og var einnig æfingakennari við Kennaraháskóla Íslands. Þá vann hún sem kennsluráðgjafi við Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis en hætti störfum árið 1996. Rannveig samdi námsefni fyrir börn og skrifaði ævisögu sína sem kom úr árið 2000 og nefnist Myndir úr hugskoti. Þar kemur fram að Rannveig veiktist ung af berklum og gekkst undir rifjahögg á Akureyri og dvaldi mörg ár á hæli fyrir berklasjúklinga. Hún var virkur félagi í Sambandi íslenskra berklasjúklinga ( SÍBS).
Rannveig sat mörg ár í stjórn Gammadeildar en einnig sat hún í stjórn landsambands DKG. Hún var gerð að heiðursfélaga Félags íslenskra sérkennara árið 2008 og sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag árið 2011. Á landsambandsþingi DKG vorið 2013 var Rannveig gerð að heiðursfélaga samtakanna. Félagskonur minnast Rannveigar með þakklæti í huga fyrir vel unnin störf og votta aðstandendum dýpstu samúð.