Sigrún fær alþjóðlega viðurkenningu

Dr. Sigrún Klara ásamt landsambandsforseta Guðbjörgu M. Sveinsdóttur
Dr. Sigrún Klara ásamt landsambandsforseta Guðbjörgu M. Sveinsdóttur
Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni okkar fékk Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir alþjóðlega viðurkenningu DKG í Amsterdam í sumar. Eftirfarandi frétt af því tilefni var send á nokkra íslenska fjölmiðla:

Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir varð á dögunum þess heiðurs aðnjótandi að hljóta International Achievement Award sem er æðsta viðurkenning sem veitt er innan Delta Kappa Gamma, alþjóðlegs félags kvenna í fræðslustörfum. Sigrún Klara er fyrsta konan í Evrópu sem hlýtur þessa viðurkenningu en hún er veitt konu sem lagt hefur á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu samtakanna.

Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir á að baki langan og farsælan feril í Delta Kappa Gamma. Hún er stofnfélagi í Alfadeild og hefur verið félagi síðan 1975. Sigrún Klara var foseti landssambandsins 1995-1997, hefur einnig setið í stjórn landssambandsins og gengt ýmsum störfum innan sinnar deildar. Hún hefur staðið fyrir stofnun nýrra deilda og allt frá árinu 1995 hefur Sigrún Klara verið mjög virk í alþjóðastarfi DKG. Hún var annar varaforseti alþjóðasamtakanna 2008-2010 og hefur setið í mörgum alþjóðanefndum. Sigrún Klara hefur haldið óteljandi fyrirlestra og kynningar bæði hér heima, í Evrópu og fyrir alþjóðasamtökin á ýmsum ráðstefnum og þingum. Hún hefur með virkri þáttöku sinni tekið þátt í að móta starf DKG á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir starfaði sem prófessor í upplýsinga-og bókasafnsfræðum við HÍ og forstöðumaður Landsbókasafns (Þjóðarbókhlaða). Hún var sæmd riddarakrossi fyrir framlag sitt til bókasafns- og upplýsingafræða árið 2003. Hún hefur ferðast til yfir 100 landa og heimsótt allar heimsálfurnar. Auk þess hefur hún tekið virkan þátt í hjálparstarfi og eitt af hennar áhugamálum er að aðstoða börn í Perú og starfrækir hún samtökin Vinir Perú sem styrkir efnalítil börn þannig að þau komist í skóla, njóti lestrarkennslu og hafi bækur til að lesa. Hún hefur líka sýnt áhuga sinn á lesefni fyrir íslensk börn m.a. með því að gefa yfir 1000 bækur til nýlegs Barnabókaseturs á Akureyri. Sýning á ýmsum munum sem hún hefur safnað og sýna fólk við lestur hefur verið í Gerðubergi síðastliðið ár.
Þann 9. október verður Sigrún Klara 70 ára og ætlar að halda upp á afmælið með því að halda opið barnabókaþing í Þjóðarbókhlöðunni sem eflaust verður mjög spennandi