Þóra Unnur Kristinsdóttir, félagi í Alfadeild, lést 29. apríl síðastliðinn
Þóra Unnur Kristinsdóttir, félagi í Alfadeild lést 29. apríl síðastliðinn, 93 ára að aldri.
Þóra var fædd 3. ágúst 1930 á Hólmavík. Hún lauk kennaraprófi 1951 og síðar prófi í sérkennslufræðum frá Statens Spesiallærehögskole í Ósló 1980. Þóra hóf sinn kennaraferil á Hólmavík, kenndi við Melaskóla 1954-1971, við Æfinga- og tilraunaskóla KHÍ 1972-1978, var stundakennari við Kennaraháskóla Íslands 1972-1982, lektor og síðan dósent við Kennaraháskóla Íslands frá 1982 til starfsloka.
Þóra var einn virtasti fræðimaður þjóðarinnar á sviði læsis og lestrarkennslu. Eftir hana liggur fjöldi kennslubóka og skrifa um lestrarkennslu og námsbækur hennar eru enn notaðar í skólum landsins. Hún tók þátt í viðamiklum rannsóknum á læsi og lestrarkennslu, kenndi fjölda stúdenta í kennaranámi og kennaranámskeið hennar voru afar vinsæl og gagnleg. Þóra gekk til liðs við Alfadeild 8. desember 1981. Þess má geta að einkadóttir Þóru, Kristín Björk Gunnarsdóttir, er einnig félagi í Alfadeild.
Við, félagskonur í Delta Kappa Gamma, minnumst Þóru Unnar með þakklæti og virðingu og vottum aðstandendum hennar okkar dýpstu samúð.